Handbolti

Stærsta tap gestgjafa síðan á HM á Íslandi 1995

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik íslenska landsliðsins á HM á heimavelli árið 1995.
Frá leik íslenska landsliðsins á HM á heimavelli árið 1995. Vísir/Brynjar Gauti Sveinsson
Pólverjar komust ekki í undanúrslit á Evrópumótinu í handbolta sem fer fram á þeirra heimavelli en pólska liðið brann yfir á úrslitastundu í gær og steinlá á móti Króatíu.

Pólverjar þurftu eitt stig til að tryggja sér sæti í undanúrslitum og þeir hefðu líka mátt tapa með eins til þriggja marka mun.

Þeir mættu Króötum sem þurftu í raun kraftaverk til þess að fá að spila um verðlaun en aðeins tíu marka sigur myndi duga Króatíska liðinu. Hefði Króatar unnið með fimm til níu marka mun hefðu þeir sent Frakka í undanúrslitin.

Króatíska liðið gerði hið ómögulega og gjörsigraði yfirspennt pólskt lið. Króatar unnu á endanum með fjórtán marka mun, 37-23, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 15-10.

Byrjunin á seinni hálfleiknum er eitt það ótrúlegast sem hefur sést í leik þar sem undanúrslitasæti er í boði en króatíska liðið skoraði átta fyrstu mörk hálfleiksins og komst í 23-10.

Það er ekki á hverjum degi sem gestgjafar á HM eða EM tapa og hvað þá svona stórt. Þegar sögubækurnar voru opnaðar upp á gátt kom líka í ljós að það þarf að fara rúm tuttugu ár aftur í tímann til að finna stærra tap hjá gestgjöfum á heimsmeistaramóti eða Evrópumóti.

Fjórtán marka tap Pólverja í gær var stærsta tap heimamanna á HM eða EM síðan að íslenska landsliðið tapaði með þrettán marka mun fyrir Rússum í Laugardalshöllinni 16. maí 1995 en sá leikur var í sextán liða úrslitum keppninnar.

Þetta var stærsta tap íslenska liðsins á heimsmeistaramóti frá upphafi og þýddi að íslenska liðið var úr leik á mótinu.

Útlitið var alls ekki slæmt stærsta hluta fyrri hálfleiks en Rússar skoruðu síðustu tvö mörk fyrri hálfleiksins og voru þremur mörkum yfir í hálfleik 11-8.

Í stöðunni 15-11 hrundi leikur íslenska liðsins síðan endanlega og Rússar unnu síðustu mínútur leiksins 10-1 og þar með leikinn með þrettán marka mun.  

Hér fyrir neðan má lista yfir stærstu töp heimaliða á HM eða EM undanfarna þrjá áratugi.



Stærstu töp gestgjafa á HM eða EM síðustu 30 ár:

 (frá og með Heimsmeistaramótinu í Sviss 1986)

- 17 Portúgal á móti Rúmeníu (21-38, EM 1994)

- 14 Pólland á móti Króatíu (23–37, EM 2016)

- 13 Ísland á móti Rússlandi (12-25, HM 1995)

- 10 Svíþjóð á móti Rússlandi (20-30, HM 1993)

- 9 Danmörk á móti Frakklandi (32-41, EM 2014)

- 9 Sviss á móti Sovétríkjunum (15-24, HM 1986)

- 9 Japan á móti Litháen (15-24, HM 1997)

- 8 Ítalía á móti Þýskalandi (18-26, EM 1998)

- 8 Spánn á móti Frakklandi (21-29, EM 1996)

- 8 Portúgal á móti Þýskalandi (29-37, HM 2003)

- 8 Tékkóslóvakía á móti Rúmeníu (17-25, HM 1990)

- 8 Sviss á móti Júgóslavíu (19-27, HM 1986)

- 7 Sviss á móti Úkraínu (30-37, EM 2006)

- 7 Slóvenía á móti Þýskalandi (24-31, EM 2004)

- 7 Ítalía á móti Júgóslavíu (19-26, EM 1998)

- 7 Portúgal á móti Danmörku (17-24, EM 1994)

- 7 Sviss á móti Austur-Þýskalandi (16-23, HM 1986)

Pólverjar eftir skellinn í gær.Vísir/AFP

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×