Viðskipti innlent

Landsbankinn hafnar ásökunum um óheilindi við söluna á Borgun

Bjarki Ármannsson skrifar
Landsbankinn seldi rúmlega þrjátíu prósenta hlut í Borgun fyrir 2,2 milljarða til stjórnenda og hóps fjárfesta árið 2014.
Landsbankinn seldi rúmlega þrjátíu prósenta hlut í Borgun fyrir 2,2 milljarða til stjórnenda og hóps fjárfesta árið 2014. Vísir/Ernir
Landsbankinn hefur sent samantekt til Alþingis vegna umdeildrar sölu á 31,2 prósenta hlut bankans í greiðslukortafyrirtækinu Borgun. Samantektin hefur jafnframt verið birt í heild sinni og má finna hana í viðhengi við þessa frétt. Bankaráð Landsbankans kveðst hafa fylgst með söluferlinu frá upphafi og hafnar ásökunum um að bankaráð eða starfsmenn bankans hafi unnið að sölunni af óheilindum.

Landsbankinn seldi hlutinn í Borgun fyrir 2,2 milljarða til stjórnenda og hóps fjárfesta árið 2014. Salan hefur vakið gagnrýni eftir að greint var frá því að sölusamningurinn tryggði ekki greiðslur til bankans ef af kaupum Visa Inc. á Visa Europe yrði, líkt og tryggt var í samningi um sölu bankans á hlut í öðru greiðslukortafyrirtæki, Valitor. Hvorug salan for fram í gegnum opið útboð.

Bankinn hefur fullyrt að hann hafi ekki haft upplýsingar um að valréttur vegna hugsanlegra kaupa Visa Inc. myndi leiða til greiðslna til Borgunar. Í tilkynningu á vef Landsbankans, þar sem fram kemur að samantektin hafi verið sent Alþingi, segir að bankaráð hafi í ákvörðunum um málið ávallt haft hagsmuni bankans og eigenda hans að leiðarljósi.

Mótmælt var við útibú Landsbankans í Austurstræti í dag og Steinþór Pálsson bankastjóri hvattur til að segja af sér vegna málsins. Steinþór segist telja það fjarri lagi að bankinn hafi orðið af milljörðum króna vegna samningsins.


Tengdar fréttir

Landsbankinn vissi að Visa gæti tekið yfir Visa Europe

Landsbankinn hafði upplýsingar um valrétti en hafði engar upplýsingar um að Borgun hf. gæti notið hagsbóta af yfirtöku á VISA Europe. Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans segir það hafa legið fyrir síðar, eftir söluna á bréfunum í Borgun hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×