Handbolti

Æsispennandi sigur Þýskalands

Anton Ingi Leifsson skrifar
Weinhold skoraði fimm mörk fyrir Þýskaland.
Weinhold skoraði fimm mörk fyrir Þýskaland. vísir/getty
Þýskaland er á toppi milliriðils tvö eftir sigur á Rússlandi í æsispennandi leik, 30-29. Þjóðverjar eru í góðri stöðu að komast í undanúrslitin, en þeir mæta Danmörku í lokaumferð milliriðilsins á miðvikudag.

Rússarnir byrjuðu vel og náðu þriggja marka forskoti snemma, 7-4. Þjóðverjar náðu svo að jafna í 10-10 og eftir það var leikurinn jafn fram að hálfleik, en Þjóðverjar leiddu 17-16 í hálfleik.

Í síðari hálfleik byrjuðu Þjóðverjarnir vel og náðu mest fimm marka forskoti, 24-19. Þá héldu einhverjir að Þjóðverjarnir myndu sigla þessu örugglega heim, en Rússarnir voru ekki á sama máli.

Þeir náðu hægt og bítandi að komast inn í leikinn og jöfnuðu svo í 26-26. Þá komu hins vegar tvö mörk frá Þjóðverjum, en aftur náðu Rússarnir að minnka muninn.

Rússar héldu í síðustu sóknina, tóku markvörðinn og spiluðu með sjö útileikmenn. Dmitrii Zhitnikov tók lokaskotið nokkrum sekúndum fyrir leikslok, en yfir markið. Lokatölur 30-29 æsispennandi sigur Þjóðverja.

Eftir sigurinn er Þýskaland á toppi riðilsins með sex stig, en Danmörk og Spánn eru í öðru og þriðja sæti með fjögur stig. Þau mætast síðar í kvöld.

Rússarnir eru í fjórða sætinu með þrjú stig og eiga því ekki möguleika á að komast í undanúrslitin.

Christian Dissinger skoraði sjö mörk fyrir Þjóðverja, en næstur kom Erik Schmidt með fimm mörk. Hjá Rússunum var það Timur Dibirov sem var markahæstur með sjö mörk, en Mikhail Chipurin kom næstur með fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×