Handbolti

Svíar björguðu stigi átta sekúndum fyrir leikslok

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tibur Dibirov var bestur hjá Rússlandi.
Tibur Dibirov var bestur hjá Rússlandi. vísir/epa
Rússar og Svíar gerðu jafntefli, 28-28, í frábærum handboltaleik á Evrópumótinu í Póllandi í kvöld, en leikurinn fór fram í milliriðli tvö sem spilaður er í Wroclaw.

Eins og flestir aðrir leikir á Evrópumótinu var þessi hin besta skemmtun og skildi vart á milli liðanna. Þau skiptust á að skora í fyrri hálfleik og var jafnt í hálfleik, 15-15.

Í seinni hálfleik náði hvorugt liðið tveggja marka forskoti fyrr en Timur Dibirov, hornamaðurinn magnaði sem spilar með Vardar, kom Rússlandi í 28-26 af vítalínunni.

Vítið skoraði hann í kjölfar brottvísunar Svíans Johans Jakobssonar, en sú brottvísun fór næstum því með leikinn fyrir Svíana.

Matthias Zachrisson skoraði frábært mark með undirhandarskoti í síðustu sókn Svíþjóðar og minnkaði muninn fyrir Svíana einum færri í 28-27.

Rússarnir voru samt með leikinn í hendi sér en töpuðu boltanum í lokasókninni. Svíarnir köstuðu honum fram á Johan Johannsson sem bjargaði stigi fyrir Svía með jöfnunarmarki átta sekúndum fyrir leikslok, 28-28.

Dibirov var markahæstur Rússanna með sjö mörk úr níu skotum en hjá Svíþjóð var Jakobsson lang bestur með níu mörk úr ellefuskotum.

Mattias Andersson varði aðeins sex skot í marki Svíþjóðar og var með 21 prósent hlutfallsmarkvörslu sem þykir saga til næsta bæjar. Í marki Rússa varði Victor Kireev tíu skot og var með 26 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Rússar eru með þrjú stig í milliriðli tvö í fjórða sæti en Svíar eru sæti neðar með eitt stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×