Handbolti

Dagur gerði eins og Guðmundur og rassskellti Dusjebaev

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagur Sigurðsson fer hamförum á hliðarlínunni í kvöld.
Dagur Sigurðsson fer hamförum á hliðarlínunni í kvöld. vísir/epa
Annan leikinn í röð fékk ungverska landsliðið undir stjórn Talant Dushebaev rassskell á móti íslenskum þjálfara á Evrópumótinu í Póllandi.

Lærisveinar Dags Sigurðssonar pökkuðu Ungverjum saman í fyrsta leik milliriðils tvö á Evrópumótinu í handbolta í kvöld, 29-19. Í síðasta leik riðlakeppninnar vann Guðmundur Guðmundsson átta marka sigur á erkióvini sínum Talant Dusjebaev í uppgjöri Dana og Ungverja.

Þýska liðið hefur átt það til á EM að byrja illa en sú var ekki raunin í Wroclaw í kvöld. Þjóðverjarnir skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins og voru 5-2 yfir eftir sex mínútna leik. Þýskaland náði sex marka forskoti eftir 20 mínútur, 12-6 og gaf svo í fyrir lokasprettinn. Þegar liðin gengu til búningsklefa munaði átta mörkum á liðunum, 17-9.

Lærisveinar Dags voru að spila frábæran handbolta eins og þeir hafa gert á köflum á mótinu. Sóknarleikurinn flæddi vel, þeir fengu mörk úr mörgum leikstöðum og hraðaupphlaupum þökk sé góðri vörn.

Ungverjar, sem unnu aðeins einn leik í riðlakeppninni gegn stigalausu liði Makedóníu, áttu engin svör við þýsku vélinni í seinni hálfleik, en liðið hans Dags lítur alveg ótrúlega vel út miðað við öll meiðslin.

Þýska liðið réði lögum og lofum á vellinum og náði mest tólf marka forskoti, 28-16, þegar fimm mínútur voru eftir. Ungverska liðið fann engar glufur á þýsku vörninni og fyrir aftan voru bæði Andreas Wolff og Carsten Lichtlein í miklu stuði.

Þegar uppi var staðið nældu Þjóðverjar sér í fyrstu stigin sem í boði voru í milliriðli tvö og eru nú með fjögur stig líkt og Danmörk og Spánn sem mætast á morgun.

Fabian Wiede var markahæstur Þjóðverja í kvöld með sex mörk en hornamaðurinn Tobias Reichman skoraði fimm mörk. Í markinu varði Andreas Wolff ellefu skot og var með 41 prósent hlutfallsmarkvörslu, en Lichtlein varði þrjú skot og var með 50 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Hjá Ungverjum voru Kornel Nagy, Laszlo Nagy og Iman Jamali markahæstir með þrjú mörk. Ungverjaland er stigalaust í milliriðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×