Körfubolti

Haukaliðin tapa og tapa eftir komu nýju Kananna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brandon Mobley hlustar á Ivar Ásgrímsson þjálfara Hauka í einu leikhléinu í gær.
Brandon Mobley hlustar á Ivar Ásgrímsson þjálfara Hauka í einu leikhléinu í gær. Vísir/Hanna
Körfuknattleiksdeild Hauka gerði breytingu á stöðu erlendra atvinnumanna hjá báðum meistaraflokkum sínum um áramótin en það er ekki hægt að segja að liðin hafi byrjað vel eftir þessar breytingar.

Þau Brandon Mobley og Chelsie Alexa Schweers hafa nú spilað saman sex leiki með Haukaliðunum, þrjá leiki hvort, en fimm þeirra hafa tapast. Haukaliðin töpuðu aðeins sex leikjum samanlagt fyrstu þrjá mánuði tímabilsins en hafa nánast jafnað það á fyrstu þremur vikunum með nýju bandarísku leikmennina sína.

Karlalið Hauka hefur nú tapað fjórum leikjum í röð þar þremur þeirra eftir að Bandaríkjamaðurinn Brandon Mobley kom til liðsins. Nýjasta tapið var 30 stiga tap á móti KR-liðinu í gærkvöldi.

Brandon Mobley hefur lent í villuvandræðum í leikjunum og hefur sem dæmi farið útaf með fimm villur í síðustu tveimur leikjum sínum. Mobley var þannig kominn með þrjár villur eftir aðeins tæpar fjórar mínútur á móti KR í gær.

Brandon Mobley er búinn að skora 20,0 stig og taka 8,5 fráköst í tveimur deildarleikjum sínum en villuvandræðin þýða að hann hefur aðeins spilað 26,1 mínútur að meðaltali í leik.

Kvennalið Hauka hefur reyndar unnið einn leik síðan Chelsie Alexa Schweers kom til liðsins en sá sigur kom á móti kanalausu liði Stjörnunnar.

Haukakonur hafa aftur á móti tapað báðum leikjunum sem skiptu alvöru máli, fyrst bikarleik á móti Grindavík og svo toppslagnum á móti Snæfelli í Stykkishólmi á þriðjudagskvöldið.



Gengi Haukaliðanna á Íslandsmóti og í bikarkeppni á tímabilinu:

Brandon Mobley með Haukum

3 leikir: 0 sigrar og 3 töp

Fyrir komu hans: 8 sigrar í 13 leikjum (62 prósent)

Chelsie Alexa Schweers með Haukum

3 leikir: 1 sigur og 2 töp

Fyrir komu hennar: 12 sigrar í 13 leikjum (92 prósent)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×