Handbolti

Lítill munur á því þegar Ísland var manni færri eða manni fleiri á EM í Póllandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins.
Ólafur Stefánsson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins. Vísir/Valli
Íslenska handboltalandsliðið spilaði aðeins þrjá leiki á Evrópumótinu í Póllandi og er á heimaleið eftir riðlakeppnina. Það er athyglisvert að skoða hvernig íslenska liðinu gekk í yfirtölu og undirtölu á Evrópumótinu.

Íslenska liðið gerði vissulega vel þegar liðið var manni færri eftir að hafa misst leikmann útaf í tvær mínútur. Liðið nýtti 11 af 20 sóknum sínum manni færri eða 55 prósent sóknanna.

Það gekk hinsvegar ekki nógu vel að nýta það þegar mótherjar liðsins misstu mann af velli. Íslenska liðið var manni fleiri í 28 sóknir og nýttu 16 þeirra sem gerir 57 prósent sóknarnýtingu.

Það munar því aðeins tveimur prósentustigum á sóknarnýtingu íslenska liðsins hvort liðið sé manni fleiri eða manni færri. Allt eru þetta tölur frá mótshöldurum.

Það er þó aðallega sóknarnýting mótherja íslenska liðsins manni færri sem stingur í augun.

Mótherjar Íslands í B-riðlinum, Noregur, Hvíta Rússland og Króatía, spiluðu 23 sóknir manni færri á móti Íslandi og 17 þeirra enduðu með marki. Það þýðir að andstæðingar Íslands í riðlinum voru með 74 sóknarnýtingu manni færri.

Það er mun betri nýting en þegar sömu lið voru manni fleiri á móti Íslandi en liðin þrjú nýttu þá 62 prósent sókna sinna eða 16 af 26.

Króatar voru með langbestu sóknarnýtinguna manni færri eða 68 prósent (13 mörk í 19 sóknum) en Ísland er þar í þriðja sæti á eftir Króötum og Rússum sem nýttu 62 prósent sókna sinna manni færri.

Það gekk sem dæmi miklu betur í undirtölunni hjá íslensku strákunum heldur en hjá bæði Dönum (25 prósent, 2 af 8) og Svíum (21 prósent, 3 af 14). Danir og Svíar reka einmitt lestina á þessum lista.

Ísland er aftur á móti í fimmta neðsta sæti yfir bestu sóknarnýtinguna manni fleiri en þar eru aðeins Hvíta Rússland, Svartfjallaland, Pólland og Serbía fyrir neðan íslenska liðið.

Sóknarnýting íslenska liðsins manni fleiri á EM 2016:

Á móti Noregi: 55 prósent (11/6)

Á móti Hvíta Rússlandi: 64 prósent (11/7)

Á móti Króatíu: 50 prósent (16/3)

Samanlagt: 57 prósent (28/16)

Sóknarnýting íslenska liðsins manni færri á EM 2016:

Á móti Noregi: 50 prósent (6/3)

Á móti Hvíta Rússlandi: 57 prósent (7/4)

Á móti Króatíu: 57 prósent (7/4)

Samanlagt: 55 prósent (20/11)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×