Handbolti

Mest sláandi tölfræðin hjá Íslandi á EM er ekki markvarslan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland er úr leik á EM.
Ísland er úr leik á EM. Vísir/Valli
Það er gömul saga og ný að án vörn og marvörslu er ekki hægt að ætlast til þess að ná langt á stórmótum í handbolta. Því hefur íslenska liðið fengið að kynnast reglulega.

Ísland er úr leik á EM í Póllandi eftir að hafa tapað síðustu tveimur leikjum sínum í B-riðli, fyrir Hvíta-Rússlandi og Króatíu. Strákarnir okkar fengu á sig samtals 76 mörk í þessum tveimur leikjum.

Sjá einnig: Björgvin Páll: Sorry

HBStatz.is er ný tölfræðiveita fyrir handbolta og þar má sjá hvernig varnarleikurinn hrynur hjá íslenska liðinu eftir sigurinn á Noregi í fyrsta leiknum.

Það er sérstaklega áberandi þegar þátturinn „Legal stops“ er skoðaður. Leikmaður fær skráð á sig „löglegt stopp“ þegar honum tekst að stöðva sóknarmann andstæðings án þess að fá dæmt á sig víti, brottvísun eða gult spjald.

Varnarmenn Íslands voru með 29 slíkar stöðvanir í leiknum gegn Noregi. En aðeins níu gegn Hvíta-Rússlandi og sjö gegn Króatíu.

Andstæðingar Íslands voru mjög stöðugir í þessum þætti í leikjunum á EM og voru allir með á bilinu 25-27 stöðvanir.

Guðjón: Var tímabært að skipta um þjálfara eftir HM í Katar

Markvarslan fer einnig minnkandi eftir því sem líður á mótið en hrunið er langt í frá jafn mikið. Þar að auki er ekki svo mikill munur á markvörslu íslenska liðsins og andstæðingsins í hvert sinn.

Tapaðir boltar hafa verið vandamál hjá íslenska liðinu en Ísland tapaði til að mynda færri boltum en Hvíta-Rússland í leik liðanna, sem Hvít-Rússar unnu. Munurinn var meiri í leiknum gegn Króatíu enda mikið sem fór úrskeðis í þeim leik.

Hér fyrir neðan má sjá samantektir á þessum tölfræðiþáttum hjá HBStatz.is.

Legal stops:

Gegn Noregi: 29

Gegn Hvíta-Rússlandi: 9

Gegn Króatíu: 7

Legal stops:

Noregur gegn Íslandi: 27

Hvíta-Rússland gegn Íslandi: 25

Króatía gegn Íslandi: 26

Markvarslan:

Ísland - Noregur: 12-6

Ísland - Hvíta-Rússland: 11-11

Ísland - Króatía: 9-14

Tapaðir boltar:

Ísland - Noregur: 8-5

Ísland - Hvíta-Rússland: 10-11

Ísland - Króatía: 16-9


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×