Handbolti

Króatar tóku bronsið í Póllandi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kresimir Kozina fagnar hér einu af mörkum sínum í dag.
Kresimir Kozina fagnar hér einu af mörkum sínum í dag. Vísir/AFP
Króatar nældu í bronsið og tryggðu sér um leið sæti á HM í Frakklandi á næsta ári með 31-24 sigri á Noregi í leiknum upp á bronsverðlaunin á EM í Póllandi en Króatarnir reyndust einfaldlega númeri of stórir fyrir Norðmenn.

Norðmenn voru nokkuð óvænt að spila til verðlauna á mótinu en liðið tapaði í framlengingu gegn Þýskalandi á föstudaginn. Sama kvöld tapaði Króatía fyrir Spánverjum í seinni undanúrslitaleiknum.

Fyrri hálfleikurinn var kaflaskiptur framan af og skiptust liðin á forskotinu fyrstu fjórtán mínútur leiksins en þá settu Króatar einfaldlega í lás.

Næstu fimm mörk komu öll frá Króatíu en Norðmenn náðu að minnka muninn niður í eitt mark fyrir lok fyrri hálfleiks 11-15.

Norðmenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og fóru að saxa á forskot Króata. Náðu Norðmenn að jafna í stöðunni 17-17 þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en það var ekki sjón að sjá Króatana á þessum tíu mínútna kafla sem Norðmenn unnu 6-2.

Næstu mínúturnar skiptust liðin á mörkum en aftur virtist norska liðið einfaldlega bara missa allan kraft og keyrðu Króatarnir yfir Norðmenn síðustu fimmtán mínútur leiksins.

Náðu þeir að breyta stöðunni úr 20-19 í 28-21 á næstu tíu mínútum og reyndist tíminn einfaldlega og naumur til þess að Norðmenn gætu gert annað áhlaup á forskot Króatanna.

Lauk leiknum með sex marka sigri Króatíu en ásamt því að fara heim með bronsverðlaunin tryggðu Króatar sér sæti á HM í Frakklandi 2017 með sigrinum í dag.

Á sama tíma varð ljóst að Norðmenn mæta Slóveníu í undankeppninni fyrir HM í Frakklandi 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×