Handbolti

Landslið Dags vinsælla en Bayern München

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Dagur Sigurðsson og aðstoðarþjálfari hans Alexander Haase.
Dagur Sigurðsson og aðstoðarþjálfari hans Alexander Haase. Vísir/EPA
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands, er orðinn þjóðhetja í Þýskalandi eftir að hafa stýrt Þjóðverjum til sigurs á EM. Áhuginn á landsliðinu náði nýjum hæðum eins og hann upplifði í leigubílsferð.

„Það var gríðarlega gaman fyrir mig að móttökuathöfnin skyldi fara fram á mínum gamla heimavelli,“ segir þýska þjóðhetjan Dagur Sigurðsson en hann sveif enn um á bleiku skýi er Fréttablaðið heyrði í honum í gær.

Þá var hann að klára líklega einn eftirminnilegasta sólarhring sem hann hefur lifað. Dagurinn byrjaði á því að Þýskaland varð Evrópumeistari undir hans stjórn í Póllandi og endaði á glæsilegri sigurathöfn í Berlín um sólarhring síðar. Hún fór fram í húsinu þar sem hann stýrði Füchse Berlin um árabil.

„Það voru tíu þúsund manns í Max Schmeling-höllinni og komust færri að en vildu. Það þurfti að vísa fólki frá. Það var allt brjálað þarna og ótrúleg stemning. Þetta var ótrúlega skemmtilegt. Það voru margir stuðningsmenn Füchse þarna og ég fékk því flottar móttökur.“

Dagur Sigurðsson er búinn að vera mikið í símanum.Vísir/EPA
Þurfti að fresta Japansferð

Það er búið að vera brjálað að gera hjá landsliðsþjálfaranum síðan bikarinn fór á loft. Allir vilja tala við hann og Dagur þarf að sinna fjölmiðlastörfum áfram næstu daga.

„Ég er búinn að fara í ótrúlega mikið af viðtölum. Ég er búinn að vera að heiman í fjórar vikur og var að vonast eftir því að geta slakað aðeins á heima en nú er ég á leiðinni til Hamborgar í dag. Fer til Kölnar á morgun og svo Nürnberg og Mainz. Þessi vika er uppbókuð,“ segir Dagur en þetta fjölmiðlaferðalag hefur breytt áætlunum hans.

„Ég ætlaði að fara til Japans en þurfti að fresta þeirri ferð út af þessum skuldbindingum. Þessi áhugi er kominn aðeins út fyrir handboltann líka. Nú er ég að fara í spjallþætti og svona. Ég skil vel að Handknattleikssambandið vilji nýta mig í þetta til þess að sækja fram fyrir íþróttina á meðan við erum í sviðsljósinu. Þetta er mín vinna.“





Dagur Sigurðsson þakkar öllum í Max Schmeling-höllinni fyrir stuðninginn.Vísir/Getty
Sagði Merkel að ganga á Íslandi

Það er óhætt að tala um handboltaæði í Þýskalandi þessa dagana enda hefur áhuginn á mótinu og þýska liðinu verið ótrúlegur og náði auðvitað hámarki í úrslitaleiknum. Stærstu stjörnur Þýskalands hafa tíst um landsliðið og Angela Merkel­ kanslari hringdi í Dag í tvígang. Hvernig er að vera orðinn þjóðhetja í Þýskalandi?

„Það er mjög skrítið. Við hjónin fórum heim í leigubíl í gær og leigubílstjórinn neitaði að taka við borgun. Ég hef aldrei lent í því áður. Leigubílstjórinn var svona ánægður með landsliðsþjálfarann sinn. Þetta var magnað,“ segir Dagur og hlær. Honum fannst líka gaman að heyra í tvígang frá Angelu Merkel.

„Það var mjög skemmtilegt að heyra í henni eftir að við komumst í úrslit og mjög gaman að hún skyldi hringja líka aftur eftir úrslitaleikinn. Kallinn er bara kominn á „speed dial“ hjá henni,“ segir Dagur léttur en hann hvatti þýska kanslarann til að koma til Íslands.

„Ég hafði frétt að hún væri mikil göngukona og ég áréttaði við hana að hún ætti að nýta sér góðar gönguleiðir á Íslandi og heitu pottana. Ég bauð mig nú ekki fram sem leiðsögumann en skal taka það að mér ef hún vill.“

Allar helstu íþróttastjörnur Þýskalands tjáðu sig um landsliðið á Twitter og meira að segja keisarinn Franz Beckenbauer gerði það líka. Slík var stemningin fyrir liðinu.

Landsliðsþjálfarinn segist hafa heyrt að um 17 milljónir Þjóðverja hafi fylgst með úrslitaleiknum. Það segir allt sem segja þarf um handboltaæðið í Þýskalandi.

„Þetta eru ansi hraustlegar tölur sem maður hefur ekki kynnst. Mesti munurinn er sá að þarna er fólk farið að horfa á sem alla jafna horfir ekki á handbolta,“ segir Dagur ánægður með hafa náð þjóðinni að skjánum.

„Þetta er áður óþekkt áhorf. Bayern München er kannski að spila á sama tíma en öll þjóðin er að horfa á handbolta.“

Dagur með Evrópubikarinn.Vísir/Getty
Átti ekki von á þessum árangri

 Það þarf vart að tala mikið um þann ótrúlega árangur sem Dagur náði. Hann var með yngsta liðið á mótinu og forföllin í liðinu voru slík að þetta var í raun B-lið þýska liðsins sem varð Evrópumeistari. Ótrúlegt afrek sem seint verður leikið eftir en leyfði hann sér nokkurn tíma að dreyma um að liðið færi alla leið?

„Nei, ég gerði það ekki. Ég er tiltölulega stutt á veg kominn með liðið og ekkert langt síðan ég byrjaði með það. Ég var með alveg nýtt lið í höndunum og hugsanlega hefði ég látið mig dreyma ef ég hefði verið með mitt sterkasta lið. Frá HM í Katar voru ellefu eða tólf breytingar á hópnum. Við höfðum samt spilað vel í eitt og hálft ár en ég sá þetta nú ekki fyrir. Menn meiðast svo í mótinu og það er þriðji fyrirliði liðsins sem lyftir bikarnum að lokum,“ segir Dagur og getur ekki annað en hlegið.

„Við vorum með einn vinstri hornamann sem hafði ekki spilað 40 leiki heldur 40 mínútur. Svo erum við með tvær hetjur í lokin sem horfðu á riðlakeppnina og milliriðilinn í sófanum heima hjá sér. Við duttum á einhverja öldu sem tók okkur alla leið.“

Langt á undan áætlun

Er Dagur tók við liðinu var stefnan sett á að byggja upp nýtt lið sem myndi toppa á HM 2019 og Ólympíu­leikunum 2020. Dagur er því langt á undan áætlun.

„Ég var búinn að hugsa að það væri gott að vera í topp átta í Póllandi og hafa því náð stöðugleika með liðið. Í kjölfarið væri hægt að fara að banka á undanúrslitasæti. Nú er tröppugangurinn farinn og við verðum að vera inni í undanúrslitum það sem eftir er,“ segir Dagur.

Vísir/Getty
Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Fullkomið Dagsverk

Dagur Sigurðsson fór með hálfgert B-landslið Þýskalands á EM í Póllandi en stóð uppi sem Evrópumeistari eftir magnaða frammistöðu gegn Spáni í úrslitaleiknum. Degi var víða hampað í Þýskalandi eftir sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×