Handbolti

Fullkomið Dagsverk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson fagnar hér Evrópumeistaratitlinum eftir úrslitaleikinn í Kraká í gær. Þar höfðu Þjóðverjar mikla yfirburði gegn Spánverjum.
Dagur Sigurðsson fagnar hér Evrópumeistaratitlinum eftir úrslitaleikinn í Kraká í gær. Þar höfðu Þjóðverjar mikla yfirburði gegn Spánverjum. Fréttablaðið/Getty
Dagur Sigurðsson er langt á undan áætlun með þýska landsliðið. Þegar hann tók við því fyrir hálfu öðru ári var ætlunarverkið að byggja upp lið sem gæti orðið Ólympíumeistari árið 2020. Það er enn stóra markmið þýska landsliðsins en engan gat órað fyrir því að Degi myndi takast að vinna stóran titil á svo skömmum tíma, líkt og hann gerði á Evrópumeistaramótinu í Póllandi í gær.

Þýskaland varð þá Evrópumeistari eftir magnaða frammistöðu í úrslitaleiknum gegn Spáni. Niðurstaðan var sjö marka sigur, 24-17.

Dagur hefur hvað eftir annað á Evrópumeistaramótinu í Póllandi sýnt hversu klókur þjálfari hann er. Hann undirbjó lið sitt af kostgæfni fyrir hvern andstæðing og tókst ávallt að fá það besta úr þeim leikmönnum sem hann var með í höndunum hverju sinni. Dagur hefur á ferli sínum lagt ofuráherslu á vinnusemi og dugnað, bæði hjá sjálfum sér og leikmönnum sínum. Það er það sem skilaði Þýskalandi Evrópumeistaratitlinum, fyrst og fremst.

Í viðtali við þýska sjónvarpið eftir úrslitaleikinn sagði Dagur að árangurinn þyrfti ekki að koma neinum á óvart. „Við höfum nú verið að spila góðan handbolta í átján mánuði. Það er engin tilviljun. Þetta eru ekki bara átta leikmenn heldur erum við með gott lið. Það er sama hver kemur inn í liðið – allir gefa sig alla í leikinn. Allir leikmenn eiga hrós skilið fyrir það,“ sagði Dagur og bætti hann við að hann væri bæði þakklátur og stoltur.

Vísir/Getty
Einbeiting

Skilaboð Dags í leikhléum voru skýr. Ásamt því að leggja upp sóknar- og varnarskipulag hverju sinni voru skilaboðin sem fylgdu ávallt þau sömu – menn ættu að skila sér fljótt í vörn, brjóta ekki klaufalega af sér og halda einbeitingu og ró.

Dagur var spurður sérstaklega út í hvernig honum hefði tekist að halda einbeitingu leikmanna í lagi fram á síðustu mínútu í úrslitaleiknum.

„Það skiptir máli að pirra sig ekki yfir því þó svo að maður eigi slæmt skot eða eitthvað slíkt. Menn verða bara að halda áfram að spila sinn leik,“ sagði hann og benti á að þó svo að forysta Þýskalands í leiknum í gær hefði oft verið mikil hefði lítið mátt út af bregða. „Spánverjar eru með frábært lið og hefðu hvenær sem er getað komið til baka,“ sagði þjálfarinn.

Andreas Wolff.Vísir/Getty
Úlfurinn í markinu

Það vakti eflaust furðu margra þegar Dagur ákvað að velja Andreas Wolff í markvarðateymi þýska landsliðsins í stað Silvio Heinevetter, hans gamla markvarðar hjá Füchse Berlin.

Í stuttu máli sagt þá efast enginn um val Dags í dag. Wolff var valinn í úrvalslið mótsins fyrir úrslitaleikinn í gær og hélt upp á það með ótrúlegri frammistöðu í úrslitaleiknum. Hann varði 23 skot og var með langt yfir 50 prósenta hlutfallsmarkvörslu allan leikinn.

Eins og Wolff benti sjálfur á í viðtölum eftir leik naut hann góðs af því að spila fyrir aftan frábæra vörn Þýskalands. Með þá Finn Lemke og Hendrik Pekeler fremsta í flokki áttu Spánverjar í stökustu vandræðum með að skora þau mörk sem þurfti til að halda í við Þjóðverja. Það tók Spánverja rúmar 45 mínútur að skora tíu mörk í leiknum. Og þá voru úrslitin svo gott sem ráðin.

Loksins komnir á Ólympíuleika

Þjóðverjar misstu af Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012 og það sveið þeim mjög. En með sigrinum í gær er Þýskaland nú þegar búið að tryggja sér farseðilinn til Ríó sem og þátttökurétt á heimsmeistaramótinu í Frakklandi á næsta ári.

Þetta er aðeins í annað skipti sem Þýskaland verður Evrópumeistari í handbolta en fyrri titilinn kom árið 2004. Þjóðverjar hafa þrívegis orðið heimsmeistarar og einu sinni Ólympíumeistarar – það var á heimavelli árið 1936. Dagur gæti því bundið enda á 80 ára bið Þjóðverja eftir Ólympíumeistaratitli strax í sumar. eirikur@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Dagur, kunna Íslendingar að fagna?

Íslenski landsliðsþjálfari Þýskalands þótti heldur rólegur í fögnuðinum eftir sigurinn á EM í Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×