Erlent

Clinton og Trump herða tökin í baráttunni

Atli Ísleifsson skrifar
Marco Rubio, Ted Cruz, Bernie Sanders, Donald Trump og Hillary Clinton.
Marco Rubio, Ted Cruz, Bernie Sanders, Donald Trump og Hillary Clinton. Vísir/AFP
Demókratinn Hillary Clinton og Repúblikaninn Donald Trump unnu bæði sigur í flestum þeirra ríkja Bandaríkjanna þar sem forkosningar flokkanna fóru fram í nótt.

Clinton og Trump unnu bæði sigra í Alabama, Georgíu, Tennessee og Virginíu. Ted Cruz hafði sigur í heimaríki sínu Texas og Oklahoma.

Bernie Sanders vann sigur í fjórum ríkjum, þeirra á meðal heimaríki hans Vermont.

Kosið var í ellefu ríkjum á Ofurþriðjudeginum svokallaða og eiga jafnan línur það til að skýrast verulega í baráttunni um tilnefningar flokkanna eftir að búið er að telja upp úr kjörkössunum á þeim degi.

Frambjóðendur sem unnu sigra eftir ríkjum í nótt:

  • Donald Trump (R): Alabama, Georgía, Massachusetts, Tennessee, Virginía, Arkansas, Vermont.
  • Ted Cruz (R): Texas, Oklahoma
  • Marco Rubio (R): Minnesota
  • Hillary Clinton (D): Alabama, Georgía, Tennessee, Virginía, Arkansas, Texas, Massachusetts
  • Bernie Sanders (D): Vermont, Oklahoma, Minnesota, Colorado
Á vef CNN segir að Clinton hafi tryggt sér 314 kjörmenn í nótt en Sanders 210. Trump tryggði sér 169 kjörmenn, Cruz 97, Rubio 37, John Kasich sautján og Ben Carson þrjá.

Clinton hefur nú tryggt sér alls 873 kjörmenn, en Sanders 296. 1.383 kjörmenn þarf til að tryggja sér tilnefningu hjá Demókrötum.

Hjá Repúblikönum hefur Trump tryggt sér 274 kjörmenn, Cruz 149 og Rubio 82, en alls þarf 1.237 til að tryggja sér tilnefningu flokksins.

Hillary Clinton beindi í sigurræðu sinni spjótum sínum að Donald Trump og sagði aldrei áður hafa verið meira undir í forsetakosningunum í haust og að orðræðan hjá Repúblikönum hafi aldrei verið á eins lágu plani.

Trump sagðist sjálfur vera maður sem gæti sameinað Repúblikanaflokkinn og hætt innanhúsátökum í flokknum og einblínt á baráttuna sem framundan væri gegn Clinton.

Ted Cruz hvatti til einingar til að tryggja mætti að Trump yrði ekki frambjóðandi Repúblikana.

Marco Rubio lagði í sigurræðu sinni að „svikahrappur“ yrði aldrei forseti Bandaríkjanna og vísaði þar til Donalds Trump.

Bernie Sanders ítrekaði í ræðu sinni að nauðsynlegt væri að tryggja að auðmenn stjórni ekki öllu í ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×