Innlent

Ólafur Ragnar einn þaulsætnasti þjóðarleiðtogi heimsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, Paul Biya, Angel Merkel, Robert Mugabe og Heinz Fischer.
Ólafur Ragnar Grímsson, Paul Biya, Angel Merkel, Robert Mugabe og Heinz Fischer. Mynd/Anton/Getty
Ólafur Ragnar Grímsson er einn þaulsetnasti þjóðarleiðtogi heimsins í dag sem ekki er konungborinn og útlit er fyrir að enn bæti í. Hann tilkynnti í dag að hann hyggðist sækjast eftir endurkjöri til embættis forseta Íslands. Nái hann endurkjöri og sitji hann út kjörtímabilið gæti hann tekið fram úr þjóðarleiðtogum Tadjikistan, Hvíta-Rússlands og Gambíu.

Ólafur Ragnar Grímsson er í 17. sæti yfir þá þjóðarleiðtoga sem enn eru í embætti og lengst hafa setið. Ólafur Ragnar tók við embættinu 1. ágúst 1996 og hefur því setið í embætti í 19 ár og 261 dag. Leiðtogar Afríku-ríkja eru fyrirferðamiklir á listanum og raða sér í fimm efstu sætin, þeirra á meðal er Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, í fimmta sæti. Hann tók við á þessum degi fyrir 36 árum, 18. apríl 1980.

Sjá einnig: Ólafur Ragnar sækist eftir endurkjöri

Sá sem lengst hefur setið af þeim sitja enn er Paul Biya, forseti Kamerún, hann tók við embætti forseta 6. nóvember 1982, en þar áður var hann forsætisráðherra frá 1975. Sé hinsvegar miðað við aðrar vestrænar þjóðir, líkt og Íslendingar gera gjarnan, hefur enginn þjóðarleiðtogi sem ekki er konungborinn setið jafn lengi í embætti og Ólafur Ragnar, sá sem næst kemur er Heinz Fischer sem gegnt hefur embætti forseta Austurríkis í 11 ár og 285 daga, frá 8. júlí 2004.

Aðrir vel þekktir þjóðarleiðtogar sem raða sér í efsu þrjátíu sætin eru Bashir-Al Assad Sýrlandsforseti sem setið hefur sem forseti Sýrlands frá 17. júlí 2000 og Angela Merkel sem verið hefur kanslari Þýskalands frá 22. nóvember 2005. Nái Ólafur Ragnar endurkjöri og sitji hann út komandi kjörtímabil gæti Ólafur Ragnar hoppað upp þrjú sæti í það 14. og tekið fram úr leiðtogum Tadjikistan, Hvíta-Rússlands og Gambíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×