Sport

Tíu ára stelpa gerði 2110 magaæfingar í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyleigh Bass.
Kyleigh Bass. Mynd/Fésbókarsíða Fox Hill Elementary
Hin tíu ára gamla Kyleigh Bass frá Kansas City í Missouri-fylki í Bandaríkjunum er engin venjuleg stelpa. Hún sýndi það og sannaði með því að setja nýtt bandarískt met í Skólahreysti þeirra í Bandaríkjunum.

Margir ná ekki að gera 2110 magaæfingar alla sína ævi en Kyleigh Bass setti nýtt met hjá „Project Fit America" með því að gera 2110 magaæfingar í röð.

Gamla metið var 2001 magaæfing í röð en Kyleigh Bass bætti það um meira en hundrað magaæfingar sem er engin smá slatti ekki síst þegar þú ert þegar búinn að gera tvö slíkar.

Kyleigh Bass er í Fox Hill Elementary skólanum sem montaði sig að sjálfsögðu af afreki hennar á fésbókarsíðu skólans.

FOX 4 News hefur fjallað um málið og tók viðtal við Kyleigh Bass. „Þetta snýst bara um hugarfar. Ef þú hugsar um að gera það þá getur þú gert það," sagði Kyleigh Bass.

Það tók Kyleigh Bass 90 mínútur að klára allar magaæfingarnar og hún viðurkenndi eitt í viðtalinu. „Mér er illt í kviðvöðvunum," sagði Kyleigh Bass brosandi. Mamma hennar, Michelle, var með henni allan tímann og hvatti hana áfram.

„Þú ert með kviðvöðva úr stáli,“ skrifaði mamma hennar á fésbókarfærslu skólans um afrek hinnar tíu ára gömlu Kyleigh Bass.

Það er hægt að sjá fréttina á FOX 4 News hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×