Skoðun

Breytt greiðslu­fyrir­komu­lag fyrir þjónustu á hjúkrunarheimilum

Eygló Harðardóttir skrifar

Greiðsluþátttaka íbúa í dvalar- og hjúkrunarrýmum á hjúkrunarheimilum hefur lengi verið gagnrýnd og þess krafist að sjálfræði aldraðra yrði virt og hið svokallaða vasapeningakerfi afnumið. Núgildandi greiðslufyrirkomulag byggist á greiðslu daggjalda til hjúkrunarheimila úr ríkissjóði. Jafnframt greiða einstaklingar sem eru með tekjur yfir 82 þúsund krónum á mánuði eftir skatt, allt að 380 þúsund krónur á mánuði til heimilisins. Lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar til íbúa á hjúkrunarheimilum falla jafnframt niður en þeir fá í dag lágmarksgreiðslur, eða svokallaða „vasapeninga“ sem eru tæplega 60 þúsund krónur á mánuði.



Rætt hefur verið um að breyta kerfinu þannig að íbúar á hjúkrunarheimilum greiði milliliðalaust fyrir almenna þjónustu, þ.e. fyrir mat, þrif, þvott, tómstundastarf og húsaleigu. Um heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. lyf og aðra umönnun myndu gilda almennar reglur. Er þetta í samræmi við fyrirkomulag sem tíðkast t.d. í Danmörku. Húsaleiga tæki mið af stærð og gæðum húsnæðisins en einnig af tekju- og eignastöðu einstaklinganna. Fólk ætti jafnframt rétt á húsnæðisbótum.



Á fjárlögum 2016 er gert ráð fyrir 27,9 milljörðum króna í rekstur hjúkrunarheimila. Áætlað er að greiðslur vistmanna nemi 1,3 milljörðum króna. Þar fyrir utan er kostnaður vegna byggingar nýrra heimila en í nýrri ríkisfjármálaáætlun er gert ráð fyrir 4,7 milljörðum króna framlagi úr ríkissjóði og Framkvæmdasjóði aldraðra til þriggja nýrra hjúkrunarheimila á næstu fimm árum. Verkefnið er stórt og mikilvægt. Virða verður sjálfræði aldraðra og gæta jafnræðis á milli þeirra sem búa heima og þeirra sem fara á hjúkrunarheimili. Jafnframt þarf að fara vel yfir kosti og galla núverandi fyrirkomulags og hugmynda um breytt kerfi.



Því hef ég, að höfðu samráði við heilbrigðisráðherra, skipað starfshóp til að gera nánari tillögur um breytt greiðslufyrirkomulag. Komið verði á sérstöku tilraunaverkefni í samvinnu við eitt eða fleiri hjúkrunarheimili. Hópurinn er skipaður fulltrúum frá Landssambandi eldri borgara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands og fulltrúum ráðuneytisins.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×