Innlent

Magnús Ingberg býður sig fram til forseta Íslands

Birgir Olgeirsson skrifar
Magnús Ingberg Jónsson frá Svínavatni.
Magnús Ingberg Jónsson frá Svínavatni.
Magnús Ingberg Jónsson hefur gefið kost á sér til forseta Íslands. Magnús Ingberg er 46 ára frá Svínavatni en hann mun sem forseti leggja áherslu á að landið verði ekki stjórnlaust vegna pólitískra átaka, sem ganga að hans sögn út á að rífast innbyrðis um sérhagsmuni og frama, í stað samvinnu að bættum hag Íslendinga. 

Hann vill afnema verðtrygginguna og vill að þjóðin fái að ákveða það í næstu alþingiskosningum, ef þingið sjálft er ekki fært um það. Hann vill að húsnæðislán verði einungis með veð í eigninni og þá í prósentum, og setur mörkin á að veðsetningin verði aldrei meiri en 80 prósent. Hann er andvígur inngöngu í ESB, en segist ætla að virða skoðun þjóðarinnar þó hún verði ekki sú sama og hans.

Þá vill hann að þjóðin fái að taka ákvarðanir í umdeildum málum.

Hann segir einnig mikilvægt að bæta heilbrigðisþjónustu úti á landi og vill standa vörð um sjúkraflugið og bættar samgöngur. Magnús Ingberg er kvæntur Silju Dröfn Sæmundsdóttur og eiga þau saman fimm börn.

Í tilkynningu til fjölmiðla vekur hann athygli á að undirskriftalistar liggja frammi í Sjafnarblómi á Selfossi, versluninni Borg í Grímsnesi, Bjarnabúð Reykholti, Samkaupum á Flúðum, versluninni Vegamót við Landvegamót, Bíliðjunni Þorlákshöfn og á heimili hans við Spóarima 14 á Selfossi. 

„Mig vantar meðmælendur og fresturinn er að renna út. Ekki hika ef þú vilt ábyrgan forseta. Ef þú vilt aðstoða mig við að safna meðmælendum, þá er síminn hjá mér: 899-9670,“ segir í tilkynningunni frá Magnúsi Ingberg til fjölmiðla. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×