Fótbolti

Eiginkona Rooney brjáluð út í The Sun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Coleen Rooney, eiginkona Wayne Rooney, fyrirliða enska landsliðsins, var langt frá því að vera sátt með forsíðu breska dagblaðsins The Sun í dag.

Enskir fjölmiðlar fóru mikinn eftir að England tapaði fyrir Íslandi á EM 2016 í gær og forsíður blaðanna voru margar hverjar æði skrautlegar.

Mörgum finnst þó sem The Sun hafi farið yfir strikið með því að hafa mynd af sex ára gömlum syni Wayne Rooney, Kai, hágrátandi og niðurbrotnum á forsíðunni.

Móðir hans var afar ósátt með þessa umdeildu forsíðu og lýsti yfir óánægju sinni á Twitter.

Coleen og Wayne Rooney hafa verið saman frá því þau voru unglingar og eiga þrjú börn saman; Kai (6 ára), Klay (3 ára) og Kit sem fæddist í janúar á þessu ári.

Rooney kom Englandi yfir á 4. mínútu í leiknum í gær með marki úr vítaspyrnu. Markið dugði þó skammt þar sem Ragnar Sigurðsson jafnaði metin tveimur mínútum síðar og Kolbeinn Sigþórsson skoraði svo sigurmark Íslendinga á 18. mínútu.

Rooney lék sinn 115. landsleik í gær og jafnaði þar með met Davids Beckham yfir landsleikjahæstu útispilara í sögu enska landsliðsins. Rooney vantar nú 10 leiki til að jafna leikjamet Peter Shilton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×