Fótbolti

Birkir Már: Frábært, fáranlegt, magnað!

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birkir tæklar Rashford.
Birkir tæklar Rashford. vísir/getty
Birkir Már Sævarsson hægri bakvörður Íslands átti erfitt með að setja í orð hversu góð tilfinningin var í leikslok eftir sigur Íslands á Englandi í 16-liða úrslitum á EM í Frakklandi.

„Það er erfitt að setja þetta í einhver orð. Frábært, fáranlegt, magnað! Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja," sagði Birkir Már í samtali við Vísi í leikslok.

Englendingar náðu lítið sem ekkert að ógna undir lok leiksins, annað en Austurríkismenn í síðasta leik, en þeir ensku fengu varla færi í síðari hálfleiknum í kvöld.

„Mér leið ekkert illa. Þeir fengu enga góða sénsa. Þeir fengu bara nokkra hálfsénsa og svo erum við með Hannes, Ragga og Kára sem eru bara eins og múrveggur."

„Maður er bara enn að átta sig á þessu," sagði Birkir aðspurður um tilfinninguna í leikslok. Var Birkir var við umræðuna í ensku pressunni að þeir ætluðu að herja á bakverðina?

„Nei, ég sá það ekki. Ég vissi ekkert um það. Það hefði engin áhrif á mig," sagði Birkir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×