Fótbolti

Ragnar með mark í tímamótaleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnar fagnar marki sínu með Birki Bjarnasyni og Kolbeini Sigþórssyni.
Ragnar fagnar marki sínu með Birki Bjarnasyni og Kolbeini Sigþórssyni. vísir/epa
Eins og alþjóð veit leiðir Ísland 2-1 í hálfleik gegn Englandi í 16-liða úrslitum EM 2016 í Nice.

Íslendingar byrjuðu leikinn afar illa en Wayne Rooney kom Englandi yfir með marki úr vítaspyrnu á 4. mínútu.

Áttatíu sekúndum síðar var staðan orðin jöfn. Aron Einar Gunnarsson tók langt innkast frá hægri, Kári Árnason skallaði boltann áfram á hinn miðvörðinn, Ragnar Sigurðsson, sem skoraði af stuttu færi.

Ragnar leikur sinn sextugasta landsleik í kvöld og hélt upp á það með sínu öðru landsliðsmarki.

Á 18. mínútu kom Kolbeinn Sigþórsson Íslandi svo yfir með góðu skoti og staðan orðin 2-1. Og þannig er hún í hálfleik.

Íslensku landsliðsmennirnir hafa margir spilað tímamótaleiki á EM í Frakklandi.

Birkir Már Sævarsson lék einnig sinn sextugasta landsleik gegn Austurríki og þeir Jóhann Berg Guðmundsson, Birkir Bjarnason og Kári Árnason sína fimmtugustu.

Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson lék landsleik númer 60 gegn Portúgal og Ari Freyr Skúlason og Kolbeinn Sigþórsson sína fertugustu landsleiki í sama leik sem lyktaði með 1-1 jafntefli.

Fylgjast má með beinni textalýsingu frá leik Íslands og Englands með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×