Fótbolti

Daniel Taylor: Ísland er ekki lið sem tapar 3-0

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Daniel Taylor, yfirmaður fótboltaskrifa á enska blaðinu The Guardian, segir að enska liðið þurfi að passa sig á því íslenska í kvöld þegar liðin mætast í 16 liða úrslitum EM 2016 í Nice.

Enska liðið er mun sigurstranglegra en það hefur ekki alltaf hentað Englendingum að fara undir svona mikilli pressu inn í leiki. Taylor er mjög hrifinn af íslenska liðinu og sögu þess.

„Þetta er búin að vera ein besta saga mótsins. Það var nú nógu flott saga bara að komast á EM og vera minnsta þjóðin sem afrekar það,“ segir Taylor í viðtali við Vísi en hann er einn allra fremsti fótboltablaðamaður Englands og hefur rakað inn verðlaunum fyrir skrif sín á undanförnum árum.

„Ég man eftir þeim tímum þegar Ísland var eitt liðanna sem stóru liðin mættu til að auka sjálfstraustið og vinna auðveldlega. Ísland var í 133. sæti heimslistans fyrir fjórum árum þannig þetta er búið að vera mögnuð saga.“

Hann segir að England eigi að vinna leikinn í kvöld en þetta sé alls ekki þægilegur leikur fyrir leikmenn liðsins.

„Stærsti óttinn fyrir England er óttinn sjálfur. Ef England spilar eins og það getur best á það að vinna. Það er mikil pressa á Englandi samt og liðið ræður illa við hana,“ segir Taylor.

„Ég hef heyrt suma segja að England eigi að vinna þrjú eða fjögur núll en Ísland er ekki lið sem tapar með þannig tölum,“ segir Daniel Taylor.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×