Fótbolti

Danskir styðja Ísland í Nice: „Ísland vinnur í framlengingu“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dönsku strákarnir sex styðja Ísland í kvöld.
Dönsku strákarnir sex styðja Ísland í kvöld. vísir/vilhelm
Sex danskir strákar eru mættir til Nice og verða á leik Englands og Íslands á Riviera-vellinum í kvöld þar sem liðin mætast í 16 liða úrslitum EM 2016.

Þeir komu ekki til Frakklands til að sjá Ísland heldur var alltaf stefnan að sjá leik í 16 liða úrslitum í Nice.

„Við keyptum miða á þennan leik fyrir einu ári þannig við erum vel undirbúnir,“ segir Thomas Carlsen, einn strákanna, í samtali við V'isi.

„Ísland er eins og frændi Danmerkur þannig við höldum með Íslandi í kvöld. Engin spurning. Það er bræðralag á milli þjóðanna og við finnum fyrir vinsældum á meðan íslensku stuðningsmannanna hérna.“

Thomas viðurkennir að þeir eru ekki búnir að sjá leik með Íslandi á mótinu en hafa fylgst með ævintýrinu og eru spenntir að sjá leikinn í kvöld.

„Þetta hefur verið spennandi en íslenska liðið er enn ósigrað. Það er litla liðið í þessum leik en vonandi stendur það sig vel. Ísland á góðan séns. Þetta endar 2-2 og svo vinnur Ísland í framlengingu,“ segir Thomas.

Strákarnir sex eru allir frá Kaupmannahöfn en hvað eru þeir að gera í Nice? „Við erum búnir að vera vinir í tíu ár og ferðumst mikið. Okkur langaði á EM þrátt fyrir að Danmörk komst ekki á mótið. Þetta er gott partí,“ segir Thomas.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×