Fótbolti

Rooney: Gylfi er frábær leikmaður

Tómas þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney á æfingu enska landsliðsins.
Wayne Rooney á æfingu enska landsliðsins. vísir/getty
Wayne Rooney vildi lítið tala um einstaka leikmenn íslenska landsliðsins þegar hann var spurður um bestu leikmenn þess á blaðamannafundi enska landsliðsins í Nice í dag.

England mætir Íslandi í 16 liða úrslitum EM 2016 á morgun, en í dag sátu Rooney og Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, blaðamannafund á Allianz Riviera-vellinum í Nice.

„Gylfi er búinn að vera frábær leikmaður í úrvalsdeildinni undanfarin ár. Hann getur skorað úr föstum leikatriðum og úr opnum leik,“ sagði Rooney um stjörnu íslenska liðsins.

„Annars er Ísland með gott lið og ég vil ekki benda á neinn einstakan leikmann. Það er engin ofurstjarna í íslenska liðinu. Þetta eru allt vinnusamir strákar sem verður erfitt að brjóta á bak aftur.“

„Við erum að einbeita okkur að íslenska liðinu sem við mætum á morgun ekki einstaka leikmönnum. Við þurfum að spila boltanum hratt og reyna að brjóta þá niður,“ sagði Wayne Rooney

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×