Fótbolti

Líklegt byrjunarlið Englands gegn Íslandi: Sturridge kemur inn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Daniel Sturridge er líklegur í byrjunarliðið.
Daniel Sturridge er líklegur í byrjunarliðið. vísir/getty
Ísland mætir Englandi annað kvöld í 16 liða úrslitum EM 2016 í fótbolta en þetta verður fyrsti mótsleikur liðanna í sögunni.

England hafnaði í öðru sæti B-riðils en því mistókst að vinna riðilinn þegar það gerði markalaust jafntefli við Slóvakíu í lokaumferð riðlakeppninnar. Ísland hafnaði í öðru sæti F-riðils eftir dramatískan sigur á Austurríki í lokaleik.

Íslensku þjóðina hlakkar mikið til að sjá strákana okkar kljást við stjörnunar úr ensku úrvalsdeildinni og eru margir að velta því fyrir sér hvernig byrjunarliðið verður.

Samkvæmt þeim ensku blaðamönnum sem Vísir ræddi við í fjölmiðlaaðstöðu Allianz Riviera-vallarins í Nice í dag dag verður ein breyting á liðinu sem England stillti upp í fyrstu tveimur leikjunum.

Daniel Sturridge kemur á vinstri kantinn fyrir Raheem Sterling en Adam Lallana heldur sæti sínu og Harry Kane verður frammi.

Eric Dier og Dele Alli verða á miðjunni ásamt fyrirliðanum Wayne Rooney, í vörninni verða Walker, Cahill, Smalling og Rose og Joe Hart í markinu.

Þetta er vitaskuld ekki 100 prósent staðfest lið en Raheem Sterling hefur ekki spilað vel á mótinu og telja flestir blaðamennirnir sem mættir eru til Nice að Sturridge byrji leikinn en hann var í byrjunarliðinu gegn Slóvakíu í lokaumferðinni.

Líklegt byrjunarlið Englands: Joe Hart - Kyle Walker, Gary Cahill, Chris Smalling, Danny Rose - Eric Dier, Dele Alli, Wayne Rooney - Adam Lallana, Daniel Sturridge, Harry Kane.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Jón Daði: Gylfi er ekki með neinar lúxusafsakanir

Jón Daði Böðvarsson var í viðtali á Youtube-síðu Knattspyrnusambands Íslands en hann hefur átt flott Evrópumót og skoraði fyrra mark Íslands í 2-1 sigri á Austurríki í lokaumferð riðlakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×