Fótbolti

Góður að sitja á bekknum og horfa á leikinn en er ekki ánægður með það

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen vill ekki sitja á bekknum en er nokkuð góður í því.
Eiður Smári Guðjohnsen vill ekki sitja á bekknum en er nokkuð góður í því. vísir/vilhelm
Eiður Smári Guðjohnsen hefur aðeins komið inn á í einum leik Íslands á EM 2016 í fótbolta hingað til en það var gegn Ungverjalandi þar sem hann var grátlega nálægt því að tryggja Íslandi sigur með síðustu spyrnu leiksins.

Eiður hefur nánast aldrei verið í aðalhlutverki hjá íslenska liðinu eftir að Lars Lagerbäck tók við liðinu og Heimir Hallgrímsson síðar með honum en reynsla hans vegur þungt og ekki síst utan vallar.

Sjá einnig:Eiður Smári fór á kostum á blaðamannafundi Íslands

Hann sagðist á blaðamannafundi í dag reyna að greina leikinn þegar hann situr á bekknum þar sem hann dvelur löngum stundum með íslenska liðinu. Það er þó ekkert sem hann hefur gaman að.

„Ég er góður að horfa á leikinn að því leyti að ég reyni að leita að lausnum sem ég get nýtt mér ef ég kem inn á. Ég er samt ekki frábær í því að njóta þess að sitja og horfa því ég er aldrei sáttur með að spila ekki,“ sagði Eiður Smári.

„Ég tek þátt í leiknum og reyni að horfa á hann og greina af bekknum. Þannig get ég kannski bætt einhverju við þegar liðið kemur inn í búningsklefa.“

„Það er samt enginn ánægður með að vera á bekknum. Það þýðir samt ekki að ég sé óánægður með mitt hlutverk. Allir vilja fleiri mínútur en það þýðir ekkert að tala um það núna. Við þurfum að standa saman núna og gegna því hlutverki sem við fengum og gera það með virðingu,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

EM í dag: Groundhog day í Annecy

Tómas Þór Þórðarson og Eiríkur Stefán Ásgeirsson fara yfir allt sem snýr að íslenska liðinu á EM í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×