Fótbolti

Gylfi segist vera betri kylfingur en Harry Kane

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi og Kane fagna marki í leik gegn Sunderland.
Gylfi og Kane fagna marki í leik gegn Sunderland. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson mætir sínum gamla félaga hjá Tottenham Hotspur, Harry Kane, þegar Ísland og England eigast við í Nice í 16-liða úrslitum EM 2016 á mánudaginn.

Gylfi lék með Tottenham í tvö ár en skömmu eftir að hann yfirgaf Lundúnaliðið sprakk Kane út.

Framherjinn öflugi skoraði 21 mark í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2014-15 og bætti um betur á síðasta tímabili þegar hann skoraði 25 mörk og varð markakóngur úrvalsdeildarinnar.

Í samtali við Standard Sport fer Gylfi fögrum orðum um Kane.

„Þú gast ímyndað hvernig leikmaður hann átti eftir að verða,“ sagði Gylfi.

„Hann var mjög góður og við tókum oft aukaæfingar saman. Þú veist aldrei fyrir víst hvað gerist en hann hefur skorað ótrúlega mörg mörk fyrir Tottenham undanfarin tvö ár.

„Hann hefur sýnt að hann er frábær að klára færin sín og er orðinn einn af leiðtogunum í Tottenham-liðinu. Það sýnir hvers konar karakter hann er.“

Gylfi og Kolbeinn Sigþórsson fagna eftir leikinn sögulega gegn Austurríki á miðvikudaginn.vísir/vilhelm
Kane byrjaði fyrstu tvo leiki Englands en fann sig ekki og tókst ekki að skora. Þrátt fyrir það segir Gylfi að það styttist í næsta mark hjá Kane.

„Hann hugsar að hann muni skora í næsta leik. Þannig er hugarfarið hjá honum. Þegar sóknarmenn eru ekki að skora fer fólk að spyrja hvað sé eiginlega að og þá eykst pressan,“ sagði Gylfi sem hefur spilað hverja einustu mínútu á EM og skorað eitt mark.

„Hann er þannig gerður að hann fer ekki of hátt upp þegar hann skorar né of langt niður þegar hann skorar ekki. Hann er yfirvegaður og þess vegna mun hann halda áfram að skora mörk í gegnum ferilinn.“

Gylfi er fyrirtaks kylfingur en þeir Kane spiluðu stundum golf saman. Gylfi segist vera betri kylfingur en enski landsliðsmaðurinn.

„Hann segir kannski að hann sé betri en þá er hann að ljúga,“ sagði Gylfi í léttum dúr.


Tengdar fréttir

Vill ráða Gumma Ben til CBS

Spjallþáttastjórnandinn vinsæli, Stephen Colbert, var, líkt og heimurinn, afar ánægður með lýsingu Gumma Ben á sigurmarki Íslands gegn Austurríki.

Rooney: Við viljum vinna EM

Wayne Rooney, fyrirliði enska landsliðsins, hefur mikla trú á enska landsliðinu á EM og segir að liðið geti gert ótrúlega hluti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×