Fótbolti

Arnór um sigurmarkið: Ég er enn að átta mig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Ingvi á blaðamannafundinum í dag.
Arnór Ingvi á blaðamannafundinum í dag. Vísir/Vilhelm
Arnór Ingvi Traustason var hetja íslenska liðsins á Stade de France í fyrrakvöld er hann tryggði Íslandi 2-1 sigur á Austurríki.

Markið gulltryggði sæti Íslands í 16-liða úrslitum keppninnar en fram að því hafði Austurríki sótt stíft á íslensku vörnina. Tap í þeim leik hefði þýtt að Ísland hefði fallið úr leik.

„Þetta var gríðarlega stór stund fyrir mig og mikilægt mark. Það var mikilvægt að vinna þennan leik og þá sérstaklega fyrir þá leikmenn sem hafa spilað mest. Það var gott fyrir þá að fá tvo aukadaga,“ sagði hann en hefði leiknum lyktað með jafntefli hefði Ísland spilað sinn leik í 16-liða úrslitunum á morgun, laugardag.

Sjá einnig: Svona var blaðamannafundur strákanna í Annecy í dag

Þess í stað fær Ísland leik í Nice á mánudag gegn Englandi. En Arnór Ingvi, sem hélt ró sinni í fögnuðinum, segir að þetta hafi verið sérstök tilfinning.

„Þetta var tilfinning sem ég hef ekki upplifað áður. Ég var sjokkeraður og er enn að átta mig. Þetta var tilfinning sem ég mun aldrei gleyma.“

Arnór Ingvi var mættur á æfingu íslenska landsliðsins í Annecy í gær en hætti snemma á henni.

„Ég fékk höfuðhögg í leiknum gegn Austurríki og var stífur í hálsinum. En það er ekkert til að hafa áhyggjur af.“

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×