Fótbolti

60 metra sprettur Birkis keypti tvo auka daga fyrir þreytta leikmenn Íslands

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta heldur áfram að brjóta blað í sögu EM. Ekki nóg með að vera að þreyta frumraun sína og vera smæsta þjóðin frá upphafi til að taka þátt er hún aðeins sú þriðja í sögunni sem tapar ekki leik í riðlakeppninni á sínu fyrsta Evrópumóti.

„Ég vissi þetta ekki en skemmtileg tölfræði. Þetta sýnir nú mest bara karakterinn hjá þessum strákum sem við eigum og hversu mikið þeir eru tilbúnir að leggja á sig fyrir árangur er eitthvað til eftirbreytni fyrir alla. Það er gott fyrir alla að sjá sem stunda fótbolta að viljinn ber mann ansi langt,“ segir Heimir Hallgrímsson í samtali við íþróttadeild 365.

Sigurmarkið í leiknum skoraði Arnór Ingvi Traustason í uppbótartíma en það sem hefur vakið athygli í markinu er magnaður sprettur Birkis Bjarnasonar sem er búinn að spila allar mínútur Íslands á mótinu.

„Það sem er svo skemmtilegt við þessa síðustu sókn er að Birkir hafði það í sér að taka 60 metra sprett í lokin. Þessi 60 metra sprettur, eins erfiður og hann var fyrir Birki, keypti okkur tveggja daga frí. Við getum hrósað okkur fyrir það, að hann keypti tveggja daga frí handa öllum með því að leggja á sig þennan sprett ásamt Elmari og Arnóri Ingva,“ segir Heimir.

Skiptingarnar gengu frábærlega upp hjá þjálfurunum en þeir Theodór Elmar Bjarnason, Arnór Ingvi Traustason og Sverrir Ingi Ingason skiluðu allir frábæru framlagi sem stuðlaði að sigri Íslands.

„Við erum hrikalega stoltir af þessum strákum. Þeir komu inn á með rétt hugarfar. Þeir voru kúl og kraftmiklir. Við þurftum ferska fætur inn á þessum tíma. Svo var sterkt að fá Sverri Inga þarna inn í teiginn þegar Austurríki var byrjað að dæla boltum þar inn. Hann kom með mikilvæga skalla í burtu. Við erum mjög ánægðir með þá og allan hópinn,“ segir Heimir Hallgrímsson.

Alla fréttina má sjá í spilaranum hér að ofan.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Heimir: Menn voru bara að missa sig

Leikmenn, þjálfarar og starfslið Íslands missti sig úr gleði þegar strákarnir skoruðu sigurmarkið gegn Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×