Fótbolti

Jóhann Berg: Gef leyfi á nokkra kalda í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Berg fagnar eftir leik.
Jóhann Berg fagnar eftir leik. vísir/vilhelm
Jóhann Berg Guðmundsson var að vonum í skýjunum eftir sögulegan 2-1 sigur Íslands á Austurríki á Stade de France í dag.

„Þetta er alveg fáránlegt, við erum komnir áfram á EM og erum að fara að spila á móti Englandi,“ sagði Jóhann Berg í samtali við Pétur Marteinsson í Sjónvarpi Símans eftir leik.

„Þetta er bara rugl og sjáðu allan þennan stuðning, allir sem eru mættir hingað og það er örugglega allt vitlaust heima á Íslandi. Ég leyfi á nokkra kalda í kvöld, það er nokkuð ljóst.“

Íslenska liðið var undir mikilli pressu á löngum köflum í leiknum en stóðst hana að mestu leyti.

„Okkur hefur ekki gengið nógu vel að halda boltanum en við gerðum það vel í byrjun leiks. Svo skoruðum við og þá duttum við aðeins til baka. Austurríki er með frábært lið og frábæra leikmenn,“ sagði Jóhann Berg.

„Við unnum þetta 2-1. Mér er alveg skítsama þótt við verjumst í 90 mínútur ef við vinnum þessa leiki.“

Jóhann Berg var ánægður með hvernig Ísland byrjaði leikinn en þá hélt liðið boltanum ágætlega og átti fínar sóknir.

„Við vorum búnir að tala um að við þyrftum að sækja aðeins meira og við gerðum það. Ég átti skot í slánna og svo skoruðum við þetta mark en þá féllum við aðeins aftur. En við kunnum að verjast og kunnum að sækja,“ sagði kantmaðurinn öflugi.

„Þetta verður alvöru leikur gegn Englandi og þeir verða eflaust aðeins meira með boltann en við skorum alltaf. Það verður mjög sætt fyrir okkur sem erum að spila á Englandi að mæta þeim. Við fáum líka fimm daga hvíld í staðinn fyrir þriggja daga og það hjálpar okkur mikið,“ sagði Jóhann Berg að endingu.


Tengdar fréttir

Koller: Engin slæm lið á EM

Austurrísku leikmennirnir lærðu dýrmæta lexíu á EM í Frakklandi að sögn landsliðsþjálfarans Marcel Koller. Ísland vann Austurríki á EM í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×