Skoðun

Af hverju Guðna Th. sem forseta?

Hörður J. Oddfríðarson skrifar
Ég ætla að kjósa Guðna þrátt fyrir að hann sé MR-ingur, hafi æft handbolta, stundað aðrar íþróttir, sé fráskilinn, eigi erlenda konu, eigi börn, sé úr Garðabænum, hafi góðan smekk á sokkum og fyrrverandi eiginkona hans sé hans helsti stuðningsmaður. Þó Guðni hafi búið erlendis, gengið í háskóla bæði hér heima og erlendis, sé glimrandi góður fræðimaður, alþýðlegur í allri framgöngu og blátt áfram, ætla ég að kjósa hann. Ég ætla að kjósa hann þó svo að meirihluti íslensku þjóðarinnar virðist ætla að gera það sama. Ég læt það ekki stöðva mig í að kjósa Guðna, að konan hans er sjálfstæður einstaklingur, vel menntuð og virðist vera þokkalega á jörðinni.  

Það hindrar mig ekki að kjósa Guðna, að hann búi yfir meiri þekkingu á forsetaembættinu en flestir sem ég þekki og hafi einstaka hæfileika að ná sambandi við það fólk sem hann talar við. Ekki dregur það úr löngun minni að kjósa Guðna þó hann hafi tekið þátt í umræðum og skrifað um ESB, Icesave eða þorskastríðin á yfirvegaðan og þroskaðan hátt, hafi verið kallaður til sem álitsgjafi í sjónvarpi af og til og að hann þyki góður og skemmtilegur kennari. Ég efast ekki um val mitt þó Guðni sé fljótur að setja sig inn í málefni þeirra sem hann á samskipti við né heldur efast ég þó hann virðist útsjónarsamur og hugsandi persóna. Ekki heldur þó hann sé skemmtilegur, hafi húmor og ærslist stundum meðal vina, ég ætla samt að kjósa hann.  Þó Guðni virðist vera víðsýnn einstaklingur sem hefur sjálfstæðar skoðanir og komi vel fram í fjölmiðlum, vel ég að kjósa hann. Val mitt haggast ekki þó ég geti ekki fullyrt að Guðni sé ekki gallalaus og ekki dýrðlingur og líklega mannlegur.

Eins og fram kemur af upptalningunni hér að framan ætla ég að kjósa Guðna Th. Jóhannesson í embætti Forseta Íslands. Ég ætla að kjósa Guðna vegna þess að hann er í mínum huga langbesti kosturinn fyrir embættið, hann talar fyrir fordómalausu samfélagi, hann hefur áhuga á því sem þjóðin er að gera og hann er alþýðlegur í allri sinni framgöngu. Ég ætla að kjósa Guðna vegna þess að hann er venjulegur maður sem setur sig ekki á stall. Vegna þess að ég hef kynnt mér manninn og það sem hann vill standa fyrir. Ég tel að íslenska þjóðin þarfnist einstaklings í forsetaembættið sem er jarðbundinn, vel menntaður og víðsýnn, vel máli farinn, silgdur, heiðarlegur, getur talað máli þjóðarinnar bæði út á við og inn á við og er umvafinn ástríki og hlýju. Þess vegna ætla ég að kjósa Guðna Th. Jóhannesson og hvet ykkur hin til að gera slíkt hið sama.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×