Fótbolti

Kári: Auðvitað tekur maður þetta til sín

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári Árnason segir þetta hafa verið misskilning.
Kári Árnason segir þetta hafa verið misskilning. vísir/getty
Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, sendi strákunum okkar sæmilega pillu á blaðamannafundi þjálfaranna í Annecy í gær.

Hann gagnrýndi strákana fyrir það, að nokkrir þeirra komu of seint í kvöldmat á þriðjudagskvöldið. „Þó svo að okkur sé yfirleitt sama um það þá vildum við ítreka að það má ekki hætta að halda 100 prósent fagmennsku í því sem við erum að gera. Við viljum vera það bæði innan vallar sem utan,“ sagði Svíinn.

Ragnar Sigurðsson var ánægður með Lars og agann sem hann heldur uppi innan hópsins en aðspurður um þessi ummæli Lars í dag sagði hann:

„Ef menn verða „sloppy“ eða eru að gera upp á bak þá verður aðeins að skamma okkur.Það hefur komið nokkrum sinnum fyrir að menn gleyma hinu eða þessu. Þá verður alvöru kall eins og hann að skamma okkur aðeins.“

Kári Árnason tók undir orð félaga síns í hjarta varnar íslenska liðsins þó hann vildi nú meina að þetta hefði verið óvart hjá þeim sem mættu of seint.

„Auðvitað tekur maður þetta til sín. Hann vill að menn séu 100 prósent einbeittir þannig það er fínt að hann komi mönnum aðeins niður á jörðina,“ sagði Kári við Vísi í dag en þetta varð ekki að neinu stórmóti innan hópins.

„Þetta er bara smámál að menn mæti aðeins of seint í mat. Þetta var nú byggt á misskilningi frekar en eitthvað annað. Menn héldu að þetta væri eitthvað seinna eða frí hugsanlega. Þetta var bara misskilningur,“ sagði Kári Árnason.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×