Fótbolti

Ögmundur vann golfið á frídeginum í gær í fjarveru Gylfa Þórs

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári Árnason svarar spurningum fjölmiðlamanna í Annecy í dag.
Kári Árnason svarar spurningum fjölmiðlamanna í Annecy í dag. vísir/vilhelm
Íslenska landsliðið í fótbolta fékk frí frá öllu í Annecy í gær. Strákarnir okkar þurftu ekki að mæta á einn fund, eina æfingu eða skipulagða máltíð og gátu því gert það sem þeir vildu.

Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, sagði við Vísi í dag að stór hópur manna hefði farið í golf og aðrir á bát um Annecy-vatnið sem er afskaplega fallegt á þessum árstíma.

Kári Árnason, miðvörður íslenska liðsins, fagnaði þessum frídegi eins og hinir strákarnir en undirbúningur fyrir Frakkland í París fór á fullt í dag og heldur áfram í kvöld.

„Við erum bara að hlaða batterín. Við fórum í golf í gær og bara rólegheit. Við erum búnir að tala svolítið um hvað við hefðum getað gert betur í Englandsleiknum en við byrjum að tala um Frakkland í kvöld,“ sagði Kári í samtali við Vísi í dag aðspurður um undirbúninginn fyrir átta liða úrslitin.

Kári var einn þeirra sem fór í golf en strákarnir eru nokkuð góðir kylfingar. Hver var það sem bar sigur úr býtum? „Það var Ömmi,“ svaraði Kári og vísaði auðvitað til Ögmundar Kristinssonar, annars varamarkvarða Íslands.

Gylfi Þór Sigurðsson er líklega besti kylfingurinn í hópnum og lá blaðamanni því forvitni á að vita hvers vegna hann vann ekki: „Gylfi var ekki með,“ svaraði Kári. Það var ástæðan.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×