Fótbolti

Enginn fundið leið til að stöðva Ronaldo

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ronaldo fagnar gegn Wales
Ronaldo fagnar gegn Wales vísir/getty
Didier Deschamps þjálfari franska landsliðsins í fótbolta fær það verkefni að finna leið til að stöðva Cristiano Ronaldo fyrir úrslitaleik Frakklands og Portúgals á Evrópumeistaramótinu í fótbolta í dag.

Ronaldo hefur skorað þrjú mörk á EM og skoraði fyrra mark Portúgals í undanúrslitunum gegn Wales áður en hann lagði upp seinna markið fyrir Nani.

Deschamps gerir sér grein fyrir því að leikur Portúgals snýst að mörgu leyti um þessa helstu stjörnu liðsins.

„Ef það er til einhver and-Ronaldo áætlun þá hefur enginn fundið hana enn,“ sagði Deschamps.

„Hann er topp leikmaður og gríðarlegur íþróttamaður sem er góður í loftinu,“ sagði franski þjálfarinn en Ronaldo skoraði ótrúlegt skallamark gegn Wales þar sem hann stökk manna hæst og skallaði af miklum krafti.

„Það er ekki bara að hann geti stokkið hátt. Hann getur hangið uppi. Það er ástæða fyrir því að vöðvarnir á honum sjást svona vel en það er tvennt sem gerir hann ill viðráðanlegan í fótbolta. Það er hraði og geta í loftinu.

„Það verður mikilvægt að takmarka áhrif hans á leikinn eins vel og hægt er,“ sagði Deschamps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×