Fatakeðjan H&M verður opnuð í Smáralind í Kópavogi og á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur árin 2017 og 2018. Leigusamningar þess efnis voru undirritaðir í dag.
*Uppfært 09.45* Tilkynnt hefur verið um að viðræður standi yfir um að opna einnig verslun H&M í Kringlunni sem opna eigi á síðari hluta næsta árs.
Reginn hf og dótturfélag þess, eignarhaldsfélagið Smáralind ehf, undirrituðu í dag leigusamninga um húsnæði undir tvær verslanir undir merkjum H&M. Þá er jafnframt unnið að fjölmörgum nýjum leigusamningum í Smáralind og Hafnartorgi, að því er segir í tilkynningu frá Regin, en þau verkefni verða kynnt á næstu mánuðum.
Sjá einnig: Á von á sambærilegu verði í H&M á Íslandi
„Það er mat Regins að tilkoma H&M í Smáralind muni hafa mikil og jákvæð áhrif á verslunarmiðstöðina og verða mikilvægt skref í endurskipulagningu Smáralindar m.a. með styrkingu leigutekna til framtíðar. Jafnframt er það mat Regins að samningurinn um verslun H&M á Hafnartorgi verði stór liður í uppbyggingu öflugrar verslana- og þjónustueiningar í miðbæ Reykjavíkur,“ segir í tilkynningunni.
Greint var frá því á dögunum að verslun Debenhams í Smáralind verði lokað í síðasta lagi í maí á næsta ári, en fyrirtækið hefur verið starfrækt hér á landi í tæp fimmtán ár. Þá eru fleiri breytingar í farvatninu því verslun Útilífs mun færa sig um set innan Smáralindar og í minna verslunarrými og Hagkaupsverslunin verður minnkuð um nærri 200 metra. Verslun Karen Millen hefur einnig verið lokað í Smáralind og er nú aðeins starfrækt í Kringlunni.
