Fótbolti

Ronaldo: Grátum vonandi gleðitárum á sunnudaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldo og félagar eru komnir í úrslitaleikinn.
Ronaldo og félagar eru komnir í úrslitaleikinn. vísir/epa
„Okkur hefur dreymt um þetta frá upphafi. Við vissum að leiðin yrði erfið en við erum enn með í keppninni,“ sagði Cristiano Ronaldo, fyrirliði Portúgals, eftir sigurinn á Wales í fyrri undanúrslitaleiknum á EM 2016 í Lyon í kvöld.

Ronaldo skoraði fyrra mark Portúgala og lagði það síðara upp en bæði mörkin komu á fjögurra mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks.

„Þetta hefur verið erfitt á köflum en eins og ég hef alltaf sagt, þá er betra að byrja illa og enda vel. Leikmennirnir, þjálfarinn og allir sem koma að liðinu eiga þetta skilið,“ sagði Ronaldo sem hefur fengið talsverða gagnrýni fyrir frammistöðu sína á EM.

Hann er samt sem áður búinn að skora þrjú mörk, eiga þrjár stoðsendingar og það sem mikilvægast er, þá er Portúgal komið í úrslitaleikinn.

Þrátt fyrir langan og glæsilegan feril á Ronaldo enn eftir að vinna stórmót með portúgalska landsliðinu. Hann vonast til að sú bið taki enda á sunnudaginn.

„Vonandi brosum við eftir úrslitaleikinn og grátum gleðitárum. Ég hef alltaf sagt að draumurinn sé að vinna titil með Portúgal,“ sagði Ronaldo.

„Við erum skrefi nær því og ég trúi því að við munum vinna. Með mikilli vinnusemi, auðmýkt og fórnfýsi, eins og ég hef sýnt allan minn feril, er allt mögulegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×