Fótbolti

Ronaldo í aðalhlutverki þegar Portúgal fór í úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldo fagnar marki sínu.
Ronaldo fagnar marki sínu. vísir/getty
Cristiano Ronaldo og félagar í portúgalska landsliðinu bundu endi á ævintýri Wales á EM 2016 með 2-0 sigri í fyrri undanúrslitaleiknum í Lyon í kvöld.

Ronaldo og Nani skoruðu mörkin á fjögurra mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks. Þetta var fyrsti sigur Portúgals í venjulegum leiktíma á EM í ár.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill þar sem liðin náðu aðeins einu skoti á markið. Það átti Gareth Bale en hann var langhættulegasti leikmaður velska liðsins í leiknum. Hann vantaði þó meiri stuðning í fjarveru Aarons Ramsey sem tók út leikbann.

Seinni hálfleikurinn var miklu betri og Ronaldo braut ísinn á 50. mínútu. Real Madrid-maðurinn reis þá hæst í vítateignum og skoraði með þrumuskalla framhjá Wayne Hennessey í marki Wales. Frábær skalli hjá Ronaldo sem er kominn með þrjú mörk á EM.

Þremur mínútum síðar var staðan orðin 2-0 þegar Nani stýrði skoti Ronaldos í netið.

Eftir þetta var brekkan orðin brött fyrir Walesverja. Bale var sá eini sem ógnaði, og þá aðallega með langskotum.

Portúgalir voru nær því að bæta þriðja markinu við en bæði Joao Mario og Danilo fengu góð færi til að skora. Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og Portúgal er því komið í úrslit á stórmóti í fyrsta sinn síðan 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×