Fótbolti

Eiður: Ég er bara mannlegur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári spilaði síðustu tíu.
Eiður Smári spilaði síðustu tíu. vísir/vilhelm
Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á í tapinu gegn Frakklandi í kvöld en hann þurfti að sætta sig við að sitja á bekknum allan tímann í sigrunum gegn Austurríki og Englandi.

Eiður Smári gaf sér smá tíma til að ræða við íslenska fjölmiðla eftir leikinn en bað þá sérstaklega um að spyrja sig ekki hvort hann sé hættur. Vonandi þýðir það að hann sé ekki hættur.

Aðspurður um tilfinninguna í brjósti leikmanna inn í klefa eftir leik sagði Eiður: „Ég held að það hafi verið mikið svekkelsi. Það sem stendur upp úr hjá mér er bara stolt eftir það sem við gerðum.“

„Það hefði verið verra að hefðum við fallið út á síðustu mínútu eða í vítaspyrnukeppni eða eitthvað svoleiðis.“

Franska liðið var 4-0 yfir í fyrri hálfleik og yfirspilaði okkar stráka sem gerðu mikið af mistökum sem þeir eru ekki þekktir fyrir að gera.

„Því miður áttum við ekki séns í þessum leik. Við spiluðum ekki nógu vel. Það var ekki nógu mikil orka í okkur og við gáfum því miður of mikið af svæði. Okkur var bara refsað,“ sagði Eiður Smári.

Eins og gegn Ungverjalandi ætlaði allt um koll að keyra í stúkunni þegar Eiður Smári kom inn á. Þessi þrautreyndi og markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi viðurkenndi að þetta yljar honum um hjartarætur.

„Auðvitað. Ég er bara mannlegur eins og allir aðrir. Þetta var æðislegt. Það er samt svo erfitt þegar maður er að koma inn á og einbeita sér að því að hugsa um það sem er að gerast upp í stúku. En auðvitað fann ég fyrir þessu. Þetta var frábært," sagði Eiður sem þakkaði svo stuðninginn eftir leik ásamt hinum strákunum í liðinu.

„Það hefði verið asnalegt að gera það ekki. Þetta er besti stuðningur sem ég hef upplifað hjá íslensku landsliðinu og ég held að við getum verið ótrúlega stolt af því hvernig stuðningurinn hefur verið, hvernig fólk hefur hagað sér og hvernig það hefur mætt á völlinn. Orkan sem við höfum fundið frá fólkinu öllu bæði hér og heima hefur verið mögnuð,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×