Fótbolti

Kári: Að fá á sig fimm mörk er eitthvað sem ég get ekki brosað yfir núna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári í baráttunni við í kvöld.
Kári í baráttunni við í kvöld. vísir/afp
„Þetta er grátlegur endir á góðu móti. Við komum ekki nægilega vel inn í fyrri hálfleikinn og þetta var bara "game-over" í fyrri hálfleik," sagði Kári Árnason í samtali við fjölmiðla í leikslok.

„Við erum kannski að reyna að setja of háa pressu á þá og við stöndum of hátt. Þetta eru of auðveld mörk sem þeir eru að skora og við erum þekktir fyrir að sleppa ekki inn auðveldum mörkum."

Kári segir að leikurinn hafi bara verið búinn í fyrri hálfleik, en allt hafi gengið upp hjá Frökkunum á meðan ekkert gekk upp hjá okkur.

„Það fór bara allt úrskeiðis. Þeir fá fjögur skot á markið og það eru fjögur mörk eða eitthvað álíka. Það gekk allt upp hjá þeim á meðan ekkert gekk upp hjá okkur."

„Stundum er þetta bara svona og stundum er heppnin með þér í liði og stundum ekki. Ég get alveg farið yfir hver mörk og hvað fór úrskeiðis, en þetta er bara grátlegt að þetta fór svona."

Síðari hálfleikurinn var skömminni skárri en fyrri hálfleikurinn og kveðjustundin með stuðningsmönnum eftir leik var falleg. Kári segir að það hafi ekki glatt sig neitt:

„Nei, ekki neitt. Það er bara "frustration" hjá mér. Þegar fram líða stundir þá horfir maður þessu jákvæðum augum. Það er fáranlegt að segja þetta, en þegar maður er kominn svona langt þá vill maður gera betur."

„Að fá á sig fimm mörk er eitthvað sem ég get ekki brosað yfir núna," sagði varnarmaðurinn frábæri að lokum.


Tengdar fréttir

Gylfi: Gleymum þessum vikum aldrei

"Þetta er erfitt. Við erum mjög svekktir með það hvernig við byrjuðum leikinn en ég held að Frakkarnir hafi verið of góðir fyrir okkur,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson svekktur eftir tapið gegn Frakklandi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×