Fótbolti

Jón Daði: Búið að vera þvílíkt ferðalag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Daði skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu á EM.
Jón Daði skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu á EM. vísir/epa
Jón Daði Böðvarsson lék fyrri hálfleikinn þegar Ísland féll úr leik fyrir Frakklandi í 8-liða úrslitum EM 2016 í Frakklandi í kvöld.

„Þetta eru blendnar tilfinningar. Það er stórkostlegt að hafa náð svona langt og við erum stoltir af því en það er leiðinlegt að tapa, sérstaklega svona stórt eins og í dag,“ sagði Jón Daði eftir leik.

„Við vitum að við getum betur en það er ekkert við því að gera núna. Við getum bara lært af þessu fyrir næstu undankeppni.“

Íslenska liðið lenti á vegg í fyrri hálfleik þar sem Frakkarnir skoruðu fjögur mörk og gengu frá leiknum. En hvað fór úrskeiðis í þessum fyrri hálfleik?

„Þeir skora þetta mark snemma og fá mikla orku við það. Mér fannst þeir ekkert sérstaklega öruggir fyrstu 20 mínúturnar en svo skora þeir og fá annað mark gefins,“ sagði Jón Daði og vísaði þar til marksins sem Paul Pogba skoraði með skalla eftir hornspyrnu eftir 20 mínútna leik.

„Ég var með Pogba en hann kemur svo hratt, ég reyni mitt besta en það var erfitt að ráða við hann.“

Leikurinn var svo gott sem tapaður í hálfleik en Jón Daði var sáttur með hvernig íslenska liðið svaraði fyrir sig í seinni hálfleiknum.

„Þetta var smá hrun í fyrri hálfleik en sá seinni var allt annar. Við ræddum um að mæta í seinni hálfleikinn, sýna karakter og vinna hann. Mér fannst við eiga fínasta seinni hálfleik en það er auðvitað erfitt að koma til baka þegar þú ert 4-0 undir,“ sagði Jón Daði.

Selfyssingurinn hefur náð langt á skömmum tíma en hans leið á toppinn hefur ekki verið greið.

„Þetta er æðislegt, þetta er búið að fara þvílíkt ferðalag. Að fá að upplifa þetta, að spila fyrir svona marga Íslendinga sem eru allir syngjandi og trallandi,“ sagði Jón Daði.

„Þetta verður tilfinningaþrungið í lokin og líka horfandi til baka, hvaðan maður kemur og hversu stutt það er síðan maður var að spila á Selfossi. Núna er maður að spila á EM og í byrjunarliðinu sem framherji og búinn að skora eitt mark. Þetta er tilfinningaþrungið og gaman að upplifa þetta.“


Tengdar fréttir

Minnir smá á örlög danska dýnamítsins fyrir 30 árum

Íslenska fótboltalandsliðið varð að sætta sig við þriggja marka tap á Stade de France í kvöld í átta liða úrslitum Evrópumótsins í Frakklandi. Frakkar urðu þar með fjórða og síðasta þjóðin til að tryggja sér sæti í undanúrslitum.

Gylfi: Gleymum þessum vikum aldrei

"Þetta er erfitt. Við erum mjög svekktir með það hvernig við byrjuðum leikinn en ég held að Frakkarnir hafi verið of góðir fyrir okkur,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson svekktur eftir tapið gegn Frakklandi í kvöld.

Giroud valinn maður leiksins

Framherjinn Olivier Giroud reyndist íslenska liðinu óþægur ljár i þúfu í kvöld og var verðlaunaður í leikslok.

Giroud: Vil hrósa íslenska liðinu

Olivier Giroud segir að leikurinn í kvöld hafi líklega verið hans besti leikur fyrir franska landsliðið á stórmóti.

Hannes: Okkur leið eins og við værum ósigrandi

"Ég held að allir geti borið höfuðið hátt eftir þessa keppni þó svo þessi leikur hafi tapast í kvöld,“ sagði ein af hetjum Íslands á EM, Hannes Þór Halldórsson.

Alfreð: Vorum land og þjóð til sóma

Alfreð Finnbogason, framherji Íslands, segir að strákarnir í íslenska landsliðinu hafi verið land og þjóð til sóma í kvöld.

Payet: Besti leikur okkar á EM

Dimitri Payet var magnaður í franska liðinu í kvöld og átti stóran þátt í sigri Frakklands á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×