Fótbolti

Löw: Sé til hvernig við spilum gegn Frakklandi ... eða Íslandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joachim Löw gerir greinilega ráð fyrir því að mæta Frakklandi í undanúrslitum EM í Frakklandi á fimmtudag. Þýskaland komst í gær áfram í undanúrslitin með því að leggja Ítalíu að velli í vítaspyrnukeppni.

Löw var spurður í gær um hvort að hann væri reiðubúinn að mæta liði eins og Frakklandi með þriggja manna vörn eins og hann gerði í leiknum gegn Ítalíu í gær.

„Við þurfum að þróa okkur áfram og getum ekki alltaf spilað eins. Við höfum æft þriggja manna vörn nokkrum sinnum og líka í þessu móti. Við spiluðum svona í æfingaleik gegn Ítalíu í mars og þetta er því ekki mikil breyting fyrir okkar menn.“

„Ég verð að sjá til fyrir leikinn gegn Frakklandi. Frakkland verður öðruvísi mótherji [en Ítalía] og ég verð að sjá til hvernig við spilum gegn Frakklandi,“ sagði Löw og lauk þar með máli sínu.

„Eða Íslandi?“ heyrðist þá hjá blaðamanni úti í sal.

„Já, eða Íslandi,“ sagði Löw og brosti.

Hann var svo spurður út í mögulegan andstæðing í undanúrslitunum.

„Frakkland er vafalaust sigurstranglegri aðilinn í þeim leik. Þeir eru á heimavelli og með frábæran leikmannahóp með sterka einstaklinga. Ísland hefur komið skemmtilega á óvart. Liðið er vel skipulagt og þetta verður ekki auðvelt fyrir Frakkland en ég tel að ef Frakkland tekst að ná sínu fram þá muni Frakkar komast áfram,“ sagði Löw.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Þýskaland í undanúrslit eftir nítján víti

Þýskaland er komið í í undanúrslit á EM í Frakklandi eftir sigur á Ítalíu í vítaspyrnukeppni. Þeir mæta annað hvort Íslandi eða Frakklandi í undanúrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×