Fótbolti

Treyjurnar ekki komnar til landsins: Fólk beðið um að halda ró sinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Íslands vilja eðlilega klæðast bláu treyjunni.
Stuðningsmenn Íslands vilja eðlilega klæðast bláu treyjunni. Vísir/Vilhelm
Errea á Íslandi hefur sent frá sér tilkynningu um að sending af íslenskum landsliðstreyjum sem von var á til landsins mun ekki skila sér í dag.

„Við bíðum eftir svörum frá flutningsaðila okkar með hvað fór úrskeðis í ferlinu og hvenær þeir geta afhent sendinguna,“ segir í tilkynningu Errea á Íslandi.

Enn fremur er tekið fram að unnið verði að því að koma sendingunni til landsins sem allra fyrst en að það muni ekki takast í dag.

Sjá einnig: Von á nýrri sendingu af íslenskum landsliðstreyjum á föstudaginn

Ljóst er að margir Íslendingar eru að fara til Parísar um helgina fyrir leik Íslands og Frakklands í 8-liða úrslitum á EM í sunnudag.

„Spennustig þjóðarinnar er mjög hátt þessa dagana og erum við í áfalli yfir því að staðan sé svona. Viljum við því biðja fólk um að halda ró sinni og sýna þessu skilning,“ segir í tilkynningunni.

Eins og áður hefur verið fjallað um hefur íslenska landsliðstreyjan verið gríðarlega vinsæl, ekki bara á Íslandi heldur um alla Evrópu. Eftirspurnin mun vera 1800 prósentum yfir þeim væntingum sem gerðar voru fyrir EM í Frakklandi.


Tengdar fréttir

Íþróttaverslanir um heim allan vilja selja íslenska búninginn

Hátt í þrjátíu þúsund íslenskar landsliðstreyjur hafa selst frá því að EM í fótbolta hófst og eru þær nú nær ófáanlegar. Síðasta sólarhring hefur framkvæmdastjóri Errea á Íslandi, sem framleiðir treyjuna, fengið tugi fyrirspurna frá íþróttaverslunum um heim allan sem vilja selja íslenska búninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×