Fótbolti

Birkir Már vill frekar að Payet skjóti með vinstri en þá getur þetta gerst | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dimitri Payet getur skotið og það fast með hægri og vinstri.
Dimitri Payet getur skotið og það fast með hægri og vinstri. vísir/epa
Birkir Már Sævarsson, hægri bakvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, telur sig vita hvað hann þarf að gera til að stöðva Dimitri Payet, framherja franska landsliðsins í leik liðanna á Stade de France á sunnudaginn.

Payet er búinn að vera einn besti leikmaður franska liðsins sem ætlar sér sigur á heimavelli en tvisvar sinnum áður hefur Frakkland unnið stórmót sem gestgjafi; á EM 1984 og HM 1998.

Payet sýndi það með West Ham í ensku úrvalsdeildinni í vetur og í opnunarleik Evrópumótsins að ekki eru til margir betri skotmenn í Evrópu í dag.

„Payet er leikmaður með mikil gæði. Ég sé hann í hverri viku og hann spilar nánast alltaf vel,“ sagði Birkir aðspurður af frönskum fréttamanni á blaðamannafundi í dag hvernig honum litist á að mæta þessum sjóðheita leikmanni.

Birkir er fullmeðvitaður um styrkleika Payets. Valsarinn ætlar ekki að láta hann komast í skotfæri með hægri heldur stýra honum yfir á vinstri. Gallinn við það er þá getur þetta gerst:

„Ég þarf bara að vera ákveðinn og láta hann ekki skera inn og skjóta með hægri. Ég þarf að koma honum á vinstri fótinn,“ sagði Birkir.

Franska liðið er gríðarlega vel mannað og þó bæði Adil Rami og N'Golo Kante verða í leikbanni er erfitt að vinna veikan hlekk á gestgjöfunum.

„Það verður erfitt að finna veikleika á franska liðinu og Payet. Ég þarf bara að vera ákveðinn og leyfa honum ekki að stýra boltanum í netið,“ sagði Birkir Már Sævarsson.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×