Fótbolti

Lars: Eiður Smári er mikilvægur þó hann spili ekki mikið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári spilar ekki mikið en er mikilvægur í hópnum.
Eiður Smári spilar ekki mikið en er mikilvægur í hópnum. vísir/Vilhelm
Eiður Smári Guðjohnsen hefur ekki mikið fengið að spila á EM 2016 með íslenska landsliðinu. Hann kom inn á í seinni hálfleik gegn Ungverjalandi en þar með er það upptalið.

Eiður var ónotaður varamaður í lokaleik riðlakeppninnar gegn Austurríki og á móti Englandi í 16 liða úrslitunum þar sem strákarnir okkar unnu 2-1 sigur og komust í átta liða úrslitin.

Þrátt fyrir að spila ekki mikið er mikilvægi Eiðs Smára í leikmannahópnum mikið og Lars Lagerbäck er ánægður að hafa þennan reynslubolta með íslenska liðinu á EM.

„Eiður er mikilvægur leikmaður þó hann spili ekki mikið. Það er mjög jákvætt fyrir okkur,“ sagði Lars á blaðamannafundi íslenska liðsins í Annecy í dag.

Jón Daði Böðvarsson, framherji Íslands, er búinn að byrja alla leikina á meðan markahæsti leikmaður Íslands frá upphafi situr á tréverkinu en hann ber eðlilega mikla virðingu fyrir Eiði.

„Eiður er einn af þeim leimönnum sem ég ólst upp við að horfa á. Hann hefur átt frábæran feril og ég lít upp til hans,“ sagði Jón Daði Böðvarsson.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×