Erlent

Sjö í haldi lögreglu vegna níðingsverksins í Nice

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sjö eru nú í haldi franskra lögregluyfirvalda vegna mögulegrar aðildar að árásinni í Nice á fimmtudagskvöld þar sem 84 létu lífið. Í nótt voru karl og kona handtekin vegna málsins. Fimm voru þegar í haldi lögreglu.

Þeirra á meðal er fyrrverandi eiginkona árásarmannsins Mohamed Lahouaiej-Bouhlel sem keyrði flutningabíl í gegnum mannþröng á breiðgötu í Nice þar sem fjöldi fólks var samankominn til að fagna þjóðhátíðardegi Frakka síðastliðið fimmtudagskvöld.  Yfir 80 létust í árásinni, 300 særðust, og enn liggja um þrjátíu manns alvarlega slasaðir á sjúkrahúsi, þar af nokkur börn.

Árásarmaðurinn, sem var 31 árs með ríkisfang í Túnis og Frakklandi, var skotinn  til bana af lögreglu á staðnum. Búið er að leita á heimili Bouhlel, en lögregluyfirvöld segja ekkert benda til þess að hann hafi haft tengingu við öfgahópa.

Rannsókn á bakgrunni hans er nú í fullum gangi og sagði saksóknari í Nice á blaðamannafundi í gær að að margt benti til þess að hann hefði snúist til öfgaskoðana síðustu mánuði. Þá segir vitni sem aðstoðað hefur lögreglu við rannsókn málsins að Bouhlel hafi heimsótt breiðgötuna þar sem hann gerði árásina nokkrum dögum fyrr til að undirbúa sig.

Samtök sem kenna sig við Íslamskt ríki hafa lýst því yfir að Bouhlel hafi framið verknaðinn fyrir þeirra tilstilli. Frændi árásarmannsins segir aftur á móti ólíklegt að hann hafi framið voðaverkið í nafni íslam. Bouhlel hafi ekki verið trúaður, hann drakk til að mynda áfengi, borðaði svínakjöt og notaði fíkniefni. Þá sagðist frændinn ekki vita til þess að Bouhlel hafi nokkru sinni beðið eða farið í mosku.


Tengdar fréttir

ISIS lýsa yfir ábyrgð á árásinni í Nice

Á meðal þeirra handteknu er fyrrverandi eiginkona árásarmannsins Mohamed Lahouaiej- Bouhel, sem var 31 árs gamall karlmaður með ríkisfang í Túnis og í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×