Fótbolti

Karius gæti hirt sætið af Mignolet eftir að Klopp fékk hann til að sleppa ÓL

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Loris Karius nýr aðalmarkvörður Liverpool?
Loris Karius nýr aðalmarkvörður Liverpool? vísir/getty
Loris Karius, nýr markvörður Liverpool, hefur gefið í skyn að hann gæti byrjað í marki liðsins þegar enska úrvalsdeildin hefst eftir tæpan mánuð þar sem hann sleppti því að fara á Ólympíuleikana að beiðni Jürgens Klopps.

Karius var með öruggt sæti í byrjunarliði þýska landsliðsins á Ólympíuleikunum en ákvað að elta ekki gullið í Ríó eftir að tala við knattspyrnustjóra Liverpool sem fékk hann í sumar frá Mainz.

„Ég talaði við stjórann og við komumst að samkomulagi um að það væri ekki sniðugt að ég færi á Ólympíuleikana og myndi því missa af fyrstu tveimur leikjum tímabilsins. Auðvitað vil ég spila þá,“ sagði Karius eftir 5-0 sigur Liverpool í vináttuleik í gærkvöldi.

„Saman ákváðum við að ég myndi ekki fara til Ríó. Ég talaði fyrst við Jürgen og svo við þýska landsliðsþjálfarann sem vildi að ég færi með. En forgangsatriðið hjá mér er Liverpool. Það er mikilvægt að ég verði klár í byrjun leiktíðar,“ segir Loris Karius.

Þessi 23 ára gamli Þjóðverji sem hefur spilað með Mainz frá 2012 er í baráttu um aðalmarkvarðarstöðu Liverpool við Belgann Simon Mignolet sem hefur verið aðalmarkvörður Liverpool síðan 2013.

Belginn hefur fengið sinn skerf af gagnrýni undanfarin misseri og missti stöðu sína í liðinu á tímabili. Mignolet hefur spilað 106 deildarleiki fyrir Liverpool síðan hann kom frá Sunderland sumarið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×