Fótbolti

Daníel Leó fékk rautt spjald og Aalesund tapaði stórt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daníel Leó Grétarsson.
Daníel Leó Grétarsson. Mynd/Heimasíða Aalesunds FK
Íslendingaliðið Aalesunds FK fékk stóran skell í Bergen í kvöld þegar liðið heimsótti Brann í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Brann vann leikinn 6-0 eftir að hafa verið 2-0 yfir í hálfleik. Brann var manni fleiri í 25 mínútur.

Daníel Leó Grétarsson, Adam Örn Arnarson og Aron Elís Þrándarson voru allir í byrjunarliði Aalesund en Aron Elís var sá eini sem kláraði leikinn.

Staðan var 3-0 þegar Daníel Leó Grétarsson fékk beint rautt spjald á 65. mínútu leiksins fyrir að brjóta á sóknarmanni Brann.

Þetta var ekki mikil snerting hjá Daníel Leó og hann fékk einnig dæmda á sig vítaspyrna. Þetta var strangur dómur því endursýningar sýndu að sóknarmaður Brann féll mjög auðveldlega.

Erik Huseklepp kom Brann í 4-0 úr vítinu og liðið bætti síðan við tveimur mörkum í lokin. Varamennirnir Azar Karadas (2 mörk) og Huseklepp (1 mark) skoruðu þrjú af mörkum Brann í leiknum en Huseklepp átti einnig tvær stoðsendingar.

Adam Örn Arnarson fór af velli á 56. mínútu en staðan var þá 2-0 fyrir Brann.

Aalesund-liðið er í þriðja neðsta sæti deildarinnar með 13 stig úr 17 leikjum en liðið gæti endað í fallsæti eftir helgina nái Vålerenga að vinna sinn leik. Brann komst upp í fjórða sætið með þessum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×