Fótbolti

Sænsku Íslendingaliðin komust bæði áfram í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Heiðar Hauksson í leik með íslenska landsliðinu.
Haukur Heiðar Hauksson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/EPA
Sænsku liðin AIK frá Solna og IFK frá Gautaborg komust bæði áfram í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

AIK sló út Europa FC frá Gíbraltar en IFK Gautaborg sló út Piast Gliwice frá Póllandi. Þó létu sér þó nægja að skora bara eitt mark samanlagt í leikjum sínum í kvöld en vörnin þeirra hélt aftur á móti vel.

IFK Gautaborg var í fínum málum eftir 3-0 sigur á Piast Gliwice í fyrri leiknum á útivelli og lét sér nægja markalaust jafntefli í kvöld. Hjálmar Jónsson var allan tímann á varamannabekknum.

AIK vann 1-0 sigur á Europa FC á Gíbraltar í kvöld en það voru einmitt einnig úrslitin í fyrri leiknum í Svíþjóð. Eero Markkanen skoraði eina markið í kvöld á 55. mínútu. Haukur Heiðar Hauksson spilaði allan leikinn með AIK.

AIK mætir gríska liðinu Panathinaikos í 3. umferð forkeppninnar en IFK Gautaborg spilar við HJK frá Finnlandi sem sló út búlgarska liðið Beroe Stara Zagora í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×