Viðskipti erlent

Danskt fyrirtæki greiðir hluta launa í PokéCoins

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Nú verður að koma í ljós hvort einhver nýti sér tilboð fyrirtækisins.
Nú verður að koma í ljós hvort einhver nýti sér tilboð fyrirtækisins. vísir/getty
Danskt upplýsingatæknifyrirtæki býðst til að greiða hluta launa starfsfólk í PokéCoins. Þetta kemur fram í frétt á vef Finans Business.

Prosys er fyrirtæki með höfuðstöðvar skammt frá höfuðborginni Kaupmannahöfn. Fyrirtækið auglýsti eftir starfsfólki en enginn sótti um og því brá fyrirtækið á þetta ráð.

Mánaðarlaun hjá fyrirtækinu hljóða upp á 25.000 krónur danskar, tæplega 450.000 íslenskar, og geta umsækjendur valið um að fá hluta þess greitt út í PokéCoins. Að sjálfsögðu er einnig hægt að fá alla upphæðina greidda í alvöru peningum séu menn aðeins í atvinnuleit en stefni ekki að því að „fanga þá alla“.

Stjórnendur fyrirtækisins segja að ákveðið hafi verið að fara þessa leið til að móta fyrirtækinu sérstöðu og lokka að yngra starfsfólk til þess.

PokéCoins er gjaldmiðill í leiknum Pokémon Go sem hefur farið eins og stormsveipur um heiminn undanfarnar vikur. Með peningunum geta leikmenn meðal annars keypt sér pokékúlur, ilm til að lokka kvikindin til sín eða útungunarvélar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×