Fótbolti

Rúnar Már og félagar áfram eftir framlengingu | AIK úr leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Már í leiknum í kvöld.
Rúnar Már í leiknum í kvöld. vísir/epa
Rúnar Már Sigurjónsson og félagar í svissneska liðinu Grasshopper komust áfram í 4. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar eftir 3-3 jafntefli við Apollon frá Kýpur.

Grasshopper vann fyrri leikinn á heimavelli 2-1 og hafði því nauma forystu fyrir seinni leikinn á Kýpur í kvöld.

Staðan eftir venjulegan leiktíma í leiknum í kvöld var 2-1, Apollon í vil, og því þurfti að framlengja. Rúnar Már fór af velli í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Abraham Gneki Guie kom Apollon í 3-1 á 101. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Brasilíumaðurinn Caio metin og Grasshopper því í góðri stöðu.

Nikola Gjorgjev, 18 ára Makedóníumaður, gulltryggði svo sætið í 4. umferðinni þegar hann skoraði þriðja mark Grasshopper í uppbótartíma framlengingarinnar. Svisslendingarnir fóru áfram, samanlagt 5-4.

Haukur Heiðar Hauksson var á sínum stað í stöðu hægri bakvarðar hjá AIK þegar liðið tapaði 0-2 fyrir Panathinaikos á heimavelli.

Grikkirnir unnu fyrri leikinn á sínum heimavelli með einu marki gegn engu og einvígið því samanlagt 3-0.

Staðan var markalaus í hálfleik en strax á upphafsmínútu seinni hálfleik kom Kólumbíumaðurinn Victor Ibarbo Panathinaikos yfir. Svíinn Marcus Berg átti stoðsendinguna og hann skoraði svo annað mark Grikkjanna á 73. mínútu og kláraði leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×