Erlent

Lögreglustjóri um bandarísku sundkappana: „Afsökunarbeiðni væri vel þegin“

Birgir Olgeirsson skrifar
Ryan Lochte
Ryan Lochte Vísir/EPA
Bandarísku sundkapparnir sem héldu því fram að þeir hefðu verið rændir af vopnuðum manni voru ekki fórnarlömb glæps. Þetta hefur fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC eftir lögreglustjóra Rio de Janairo í Brasilíu. Sá heitir Fernandi Veloso en hann greindi frá því á fundi með blaðamönnum rétt í þessu að sundkapparnir hefðu gerst sekir um skemmdarverk á bensínstöð og boðist í kjölfarið til að bæta fyrir það. 

Þeir borguðu bætur og ætluðu að láta sig hverfa en voru stöðvaðir af vopnuðum öryggisvörðum. Einn af öryggisvörðum dró fram skotvopn þegar einn af sundköppunum hóf að láta ófriðlega. Þrír sundkappanna eru enn í Brasilíu og hafa verið yfirheyrðir af lögreglu. Sá fjórði, gullverðlaunahafinn Ryan Lochte, sneri til Bandaríkjanna á mánudag. Gunnar Bentz og Jack Conger voru sóttir af brasilískum yfirvöldum í flugvél á flugvellinum í Rio de Janeiro, en þeir voru þá á leið til Bandaríkjanna. Þeir voru færðir til yfirheyrslu á lögreglustöð í Rio nú síðdegis. James Feigen var enn í Brasilíu eftir að dómari hafði úrskurðað fjórmenningana í farbann. 

Heimildarmaður innan lögreglunnar í Rio hafði sagt fréttastofu BBC að sundakapparnir hefðu skáldað sögu um ránið til að reyna að leyna þessari uppákomu á bensínstöðinni. Sundkapparnir, sem hafa ítrekað breytt frásögn sinni, gætu átt yfir höfði sér ákærur fyrir falskan framburð og skemmdarverk. „Við eigum hér við áhrifamikla einstaklinga sem eiga að vita hvernig á að hegða sér,“ sagði Fernando Veloso við blaðamenn. 

Hann sagði íbúa í Rio hafa sárnað að sjá orðspor borgarinnar dregið í svaðið af sundköppunum. „Afsökunarbeiðni væri vel þegin.“

Lögreglan í Rio segir að síðastliðinn sunnudagsmorgun hefi mennirnir fjórir mætt á bensínstöðina Barra da Tijuca, sem er um sextán kílómetrum frá Ólympíuþorpinu í Rio. Einn þeirra braut hurð á salerni bensínstöðvarinnar að sögn lögreglu og voru þeir beðnir um að bæta fyrir þær skemmdir. Upphófst þá rifrildi og öryggisverðir kallaðir til, ásamt lögreglu. Á meðan lögregla og öryggisverðir voru á leið á vettvang tóku aðrir viðskiptavinir bensínstöðvarinnar að sér hlutverk túlka til að reyna að miðla málum á milli sundakappanna og starfsfólksins. Náðist þá samkomulag um greiðslu vegna skemmdanna. Þegar lögregla kom á vettvang voru sundakapparnir farnir.

Myndband úr eftirlitsmyndavél virðist sýna hvernig vopnuðu öryggisverðirnir stöðvuðu för sundakappanna og skipuðu þeim að setjast á götuna. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×