Innlent

Aldrei fleiri sótt um að búa á Stúdentagörðum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá byggingu nýrra Stúdentagarða við Oddagötu árið 2012.
Frá byggingu nýrra Stúdentagarða við Oddagötu árið 2012. vísir/pjetur
Tæplega 2300 sóttu um íbúðir á Stúdentagörðum Félagsstofnunar stúdenta (FS) fyrir komandi skólaár en umsækjendur hafa aldrei verið fleiri. Að sama skapi hafa á síðustu tíu árum aldrei verið fleiri á biðlista eftir íbúðum á görðunum, eða alls 1160 umsækjendur.

Í tilkynningu frá FS kemur fram að af þeim tæplega 2300 sem sóttu um íbúðir nú eru 885 sem sóttu um endurúthlutun, það er núverandi íbúar sem hafa rétt á áframhaldandi búsetu á görðunum.

FS hefur um 1100 leigueiningar til ráðstöfunar og þar búa um 1800 manns, stúdentar og fjölskyldur þeirra. Þegar búið var að úthluta til núverandi leigjenda voru 215 leigueiningar eftir til ráðstöfunar fyrir nýja leigjendur.

Nú í nóvember verða 102 nýjar stúdentaíbúðir teknar í notkun en nýir Stúdentagarðar hafa ekki risið síðan árið 2013. Úthlutun þeirra hefst fljótlega og reiknað er með að biðlistinn fari þá niður í um 1060, að því er segir í tilkynningu FS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×